Dúplum Dúó, skipað Björk Níelsdóttur söngkonu og Þóru Margréti Sveinsdóttur víóluleikara, kemur fram á tónleikum í Hörpu laugardaginn 11. júlí klukkan 17.00. Efnisskráin samanstendur af söngljóðum eftir Greg Saunier úr Deerhoof, Sóleyju Stefánsdóttur, Svein Lúðvík Björnsson, Aart Strootman og Björk Níelsdóttur, en ljóðin eru meðal annars sótt í sjóð skáldanna Maya Angelou, Daniil Kharms og Shakespeare.

Spurð hverskonar áhrif skapist þegar mannsröddin og víólan leggja saman segir Björk: „Þar sem við erum bara tvær drögum við fram það hráa og brothætta. Víólan fær að njóta sín og sömuleiðis ljóðin.“

Öll lögin á efnisskránni eru samin sérstaklega fyrir Dúplum Dúó. „Það eru ekki til lög fyrir þessa samsetningu, þannig að þau voru samin fyrir okkur,“ segir Þóra, en faðir hennar, Sveinn Lúðvík Björnsson, er í hópi þeirra sem sömdu verk fyrir þær. Björk samdi einnig verk fyrir tónleikana, sem hún segir vera með því fyrsta sem hún semur. „Ég samdi tónlist við ljóð Maya Angelou og svo skrifaði ég smá grínljóðaflokk, Allt er ömurlegt, og samdi tónlist við hann. Þetta er gelgjuljóðaflokkur sem fjallar um það að vera unglingur.“

Verk við ljóð Baudelaire

Dúóið hefur komið fram á tónlistarhátíðum í Hollandi og á Íslandi og vinnur nú að sinni fyrstu hljómplötu. „Við fengum styrk á COVID-tímum úr Menningarsjóði Amsterdam til að búa til verk í samstarfi við tónskáldið Aart Strootman við ljóð Baudelaire, úr ljóðaflokki hans Fleur de mal. Þetta var þegar allir þurftu að vera heima hjá sér, enginn mátti hittast og við unnum í gegnum netið, tókum upp heiman frá og sendum tónskáldinu og hann sendi okkur sína hluta verksins. Tónverkið er innblásið af núverandi ástandi í samfélaginu og verður um 15 mínútur að lengd. Myndband af okkur að flytja verkið var tekið upp í tómum tónleikasölum í Amsterdam. Það verður frumsýnt á Facebook um miðjan júlí og síðan streymt frá tónleikastöðum og söfnum í Amsterdam seinna í mánuðinum,“ segir Þóra.

Eins og vítamínsprauta

Tónverkið mun koma út á smáskífu og önnur plata mun fylgja í kjölfarið. „Öll verkin sem verða á henni eru tilbúin, en það á eftir að taka þau upp. Þau eru meðal annars eftir mig, Sóleyju Stefánsdóttur, Svein Lúðvík Björnsson og Aart Strootman,“ segir Björk.

Það er því nóg að gera hjá þeim stöllum á tímum þar sem kyrrstaða er ríkjandi. „Seinustu mánuðir hafa verið eins og vítamínsprauta. Við erum alltaf að spila fyrir fólk og tökum þátt í verkefnum annarra, en þegar þau voru öll komin á ís þá höfðum við loksins tíma til að vinna í eigin verkefnum. Við fengum rými og erum ekki í kapphlaupi við tímann,“ segir Þóra.