Fyrsti þáttur Ru­P­auls Drag Race UK var frum­sýndur í fyrradag en kepp­endur þáttarins sýndu sig á bleika dreglinum áður en sýningin hófst. Þáturinn verður síðan að­gengi­legur til al­mennings þann þriðja októ­ber en þeir verða alls átta talsins.

BBC kynnti drottningarnar sem koma til með að keppa í þáttunum til leiks í ágúst en þær skarta flestar á­huga­verðum nöfnum eins og Sum Ting Wong, Baga Chips og Scar­e­dy Cat.

Myndast hefur hefð í þáttunum að drottningar séu flokkaðar í á­kveðinn hóp eftir því hvað þær hafa fram að færa til dæmis grín­drottningar, fegurðarsamkeppnis­drottningar og út­lits­drottningar, svo eitt­hvað sé nefnt, og virðast bresku drottningarnar halda í þá hefð.

Drottningin sjálf Ru­P­aul situr að sjálf­sögðu í dóm­nefndinni á­samt henni Michelle Visa­ge, sem situr einnig í dóm­nefndinni fyrir upp­runa­lega Drag Race í Banda­ríkjunum. Einnig munu spjall­þáttasstjórn­endurnir Alan Carr og Graham Norton skiptast á að sitja í dóm­nefndinni.

Tíu ár frá fyrsta þættinum

Drag­drottningarnar sem keppa eru tíu talsins. „Allar bresku drottningarnar eru svo ein­stakar, svo hug­rakkar og svo sér­stakar. Ég get ekki beðið eftir að Bret­land – og allur heimurinn – falli fyrir þeim á sama hátt og ég hef gert,“ sagði Ru­P­aul í frétt BBC þegar þættirnir voru til­kynntir.

Fyrsti þáttur Drag Race fór í loftið árið 2009 og lauk elleftu seríunni í sumar en til­kynnt hefur verið að tólfta þátta­röðin sé í vinnslu. Þættirnir hafa verið til­nefndir til fjöl­margra verð­launa og til að mynda unnið ellefu Emmy-verð­laun.

Á­huga­vert verður að sjá hvernig þáttunum gengur en upp­runa­legu þættirnir hafa verið vin­sælir um allan heim meðal annars hér á Ís­landi.