Framleiðendur lofa miklu drama í myndinni, bæði hvað varðar ástamál og viðskipti. Leikarar í myndinni komu í sínu fínasta skarti á frumsýninguna og vöktu mikla athygli. Klæðnaður þeirra á rauða dreglinum var kannski ekki eins skemmtilegur og í myndinni en engu að síður glæsilegur. Sérstaka athygli vakti leikkonan Michelle Dockery sem fer með hlutverk lafði Mary Crawlay. Hún átti hug og hjörtu áhorfenda í sjónvarpsseríunni enda ein aðalpersónan. Hinn frægi leikari Hugh Bonneville, sem leikur föður hennar Robert Crawlay, vakti einnig mikla athygli enda frægur í heimalandinu. Sérstaka athygli vakti að hann var með alskegg sem fólk hafði ekki séð hann áður með. Kona hans í myndinni og þáttunum, hin ameríska Elizabeth McGovern, fékk sömuleiðis athygli enda fer hún með hlutverk lafði Edith Crawlay sem spilaði stóra rullu í sjónvarpsþáttunum.

Konunglegt atriði

Kvikmyndin Downton Abbey heldur áfram þar sem sjónvarpsþættirnir enduðu og gerist á árunum 1927 til 1929. Konungurinn George V. og Mary drottning eru meðal þeirra sem heimsækja kastalann. Maggie Smith, sem leikur greifynjuna Violet, kemur að sjálfsögðu við sögu í myndinni. Þegar hafa verið seldir fleiri miðar á Downton Abbey-kvikmyndina en myndina Once Upon a Time in Hollywood, sem mikið hefur verið auglýst að undanförnu.

Fatnaður leikaranna í myndinni er svolítið öðruvísi en á rauða dreglinum. Allt fallegt og fínt samt.

RÚV sýndi Downton Abbey-sjónvarpsþættina og urðu þeir ekkert síður vinsælir hér á landi en annars staðar í heiminum. Það má því búast við að margir skelli sér í bíó þegar myndin kemur til Íslands. Sagt er að framleiðendur hafi ákveðið að setja örlítinn alheimsstimpil á myndina með því að bjóða heimsfrægum leikurum að koma sem gestir.

Myndin er tekin upp í Highclere Castle í Berkshire, eins og sjónvarpsþættirnir, þannig að áhorfendur munu kannast við umhverfið. Þá er mikið lagt í búninga eins og áður.

Flott tíska og búningar

Búningarnir í myndinni voru ögrandi verkefni fyrir hönnuðinn Önnu Robbins. Hún hlaut Emmy-verðlaun fyrir búninga í sjónvarpsþáttunum. Núna þurfti hún að spreyta sig á konunglegum fatnaði og tísku þessa tíma sem var að breytast. Mörgum sem fylgdust með þáttunum þótti einmitt mjög skemmtilegt að fylgjast með klæðnaði persónanna enda var hann glæsilegur hjá Crawlay-fjölskyldunni.

Það var ögrandi verkefni fyrir hönnuðinn, Önnu Robbins, að útbúa fatnað fyrir kvikmyndina. Hún vann einnig fyrir sjónvarpsþættina og hefur því reynslu þótt kvikmyndin gerist aðeins seinna.

Anna segist hafa kynnt sér vel tísku þessa tíma og telur áreiðanleikann afar mikilvægan. Hún lagðist í mikla rannsóknarvinnu. Anna skoðaði meðal annars skjalasöfn sem geyma gömul tískutímarit. Einnig heimsótti hún söfn til að þukla á efnum fyrri tíma. Hún vildi að karakterinn héldi sér alla leið.

Kjólarnir sem Anna hannaði eru glæsilegir.

Anna segir að það hafi verið ótrúlega gaman að hefja vinnu við kvikmyndina og hitta aftur leikarana sem hún þekkti orðið svo vel í gegnum sjónvarpsþættina. „Það var mjög gott að hafa bakgrunn og reynslu úr þáttunum. Við leituðum fanga víða, ég heimsótti vintage verslanir og markaði í London og París. Einnig var ég í sambandi við bandarískan aðila sem kom til London til að sýna mér eitt og annað. Sumt af því sem hann seldi okkur varð að algjöru lykilatriði í myndinni,“ segir hún. „Það leynast víða gimsteinar.“

Sjónvarpsþættirnir voru sýndir á árunum 2010 til 2015. Þeir hlutu 15 Emmy-verðlaun og þrenn Golden Globes. Ellefu milljónir horfðu á síðasta þáttinn í Bretlandi á jóladag 2015.