Hin 19 ára gamla samfélagsmiðlastjarna Gemma Owen verður með í bresku raunveruleikaþáttunum Love Island í ár. Hún er jafnframt dóttir breska fótboltakappans Michael Owen.
Breska götublaðið The Sun hefur eftir Gemmu að hún hafi erft keppnisskapið frá föður sínum. „Ég hef keppt í burtreiðum fyrir Bretland síðan ég var 11 ára og ferðast um alla Evrópu. Ég myndi segja að ég sé með mikið keppnisskap,“ segir hún.
Bresku þættirnir eru heimsfrægir og hafa notið mikilla vinsælda í Bretlandi. Um verður að ræða áttundu þáttaröðina en þættirnir hverfast um hóp af föngulegu ungu fólki sem eyðir tíma saman í glæsivillu.
Það stendur ekki á svörum hjá Gemmu þegar hún er spurð um það hvað hún muni hafa fram að færa í villunni í sumar. „Ég myndi segja að ég væri skemmtileg, daðurgjörn og full af eldmóði. Ég er góð í að gefa ráðleggingar og það er gott að tala við mig ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ef ég myndi vilja sama gæja og einhver annar þá myndi ég vera full virðingar.“
