Athafnakonan og fyrrum forsetafrú Íslands, Dorrit Moussaieff, mætti í hádegisverðarboð í dag hjá engum öðrum en Jakob Rothschild, höfuð Rothschild-fjölskyldunnar. Boðið fór fram í hinu glæsilega Waddesdon setri í Buck­ing­ham­skíri í Bretlandi.

Dorrit birti myndband á Instagram síðu sinni í dag þar sem hún sýnir hina íburðarmiklu innkeyrslu að setrinu.

„Waddesdon setrið. Staður sem allir verða að heimsækja. Þakka þér kærlega, herra Rothschild, þetta var sannarlega eftirminnilegt hádegisboð. Þakka þér einnig fyrir að hafa sýnt mér glæsilegu gersemi setursins,“ skrifar Dorrit við myndbandið sem hún birti.

Rothschild-ættin er sennilega ein ríkasta og voldugasta fjölskylda allra tíma. Nafnið er kunnugt öllum almenningi en áhrif Rothschild gætir í viðskipta- og fjármálalífi um allan heim.