„Ég er náttúrlega staddur í svona kannski einni martröðinni sem er kveikjan að þessu verki, sem er skutla og sækja-stundin í Reykjavík,“ segir Dóri DNA, þegar honum hefur tekist að tengja símann sinn við bílinn, um leikritið Þétting hryggðar, sem Borgarleikhúsið frumsýnir í kvöld.

„Ég er að sækja í félagsmiðstöð í Vesturbænum og keyra niður í miðbæ í píanótíma. Einhvern veginn á sporbaug um Reykjavík í bílastæðaskorti á Laugaveginum,“ heldur rithöfundurinn og víninnflytjandinn áfram og dregur aðeins úr martraðarfullyrðingunni áður en hann snýr sér að raunverulegri grunnhugmynd leikritsins.

Þétting hryggðar, sem Una Þorleifsdóttir leikstýrir, fjallar um fjóra Reykvíkinga; húsmóður úr Hlíðunum, arkitekt úr Vesturbænum, ungling úr Breiðholti og iðnaðarmann úr Grafarvogi, sem af öryggisástæðum eru læst inni í fundarherbergi á borgarskrifstofunum í Borgartúni og deila um skipulagsmál, Domino’s og hverjum sé raunverulega hægt að kenna um allt sem er að.

Drullan hömruð

„Grunnhugmyndin að þessu er bara þetta gríðarlega menningarstríð sem er í gangi og þetta stóra ósætti í samfélaginu,“ segir Dóri, sem lítur á verkið sem óð til netsamskipta og dilkadráttar á netinu.

„Kannski er þetta út af samfélagsmiðlum eða kannski leyfðu samfélagsmiðlar okkur bara að afhjúpa hvað við erum í raun og veru rosalega ósammála um allt. Ég ætla að segja svolítið háfleygt og tilgerðarlegt við þig en hlustaðu nú:

Mig langaði að taka alla drulluna sem er í gangi. Hvort sem það heitir Covid eða Metoo eða hvað. Mig langaði bara að taka nútímann með allri sinni drullu og fara með hann inn á verkstæði, stálsmiðju, og berja þennan nútíma eins og stál þangað til úr yrði barið hjarta úr stáli.“

Dóri telur blasa við að þetta menningarstríð sæki frumkraft sinn til hneykslunarfíknar og gangi út á að finna endalaust eitthvað til að æsa sig yfir.

„Finna eitthvað til að stuðast yfir. Finna einhvern annan sem var gert út á. Móðgast, kúgast. Móðgast fyrir hönd þeirra sem gætu hafa móðgast. Móðgast fyrir hönd þeirra sem voru sakaðir um að móðga annan.

Satanistar á hjólum

Við höfum aldrei verið jafn brothætt. Aldrei nokkurn tímann, og þetta verk er tilraun til þess að hlæja að þessu öllu saman,“ segir Dóri og bætir við að gríninu fylgi um leið tilraun til þess að tengja fólk saman.

„Mér fannst þessi kergja brjótast svo skýrt fram í deilum um skipulagsmál. Þar sem einhvern veginn Gísli Marteinn og Dagur B. Eggertsson eru satanistar sem eru að eyðileggja Reykjavík með því að fylla hana af reiðhjólum og vögnum til að ferja fólk um,“ segir Dóri og bætir við að úr hinni áttinni heyrist aðeins tilfinningarök og upphrópanir.

Sítengdir en sundraðir Reykvíkingar takast hart á. Mynd/Borgarleikhúsið

„Rannsóknarvinnan var ekki bara að lesa skítakomment á netinu þar sem ég las líka bækur á borð við The Death and Life of Great American Cities eftir Jane Jacobs og Mannlíf milli húsa eftir Jan Gehl. Þetta eru kannski svona grundvallarrit nútíma borgarskipulags og þar bara áttar maður sig á því að borgarskipulag er töluvert ljóðrænni hugmynd en ég átti von á svona í grunninn. Við þurfum að búa nálægt hvert öðru svo við missum ekki sambandið við hvert annað.

Og það er þétting hryggðar. Því um leið og við þéttum byggðina þá þéttum við hryggðina og þá finnum við lyktina af matnum sem nágranninn eldar og við heyrum lætin í honum þegar hann hlustar á Nýdönsk á laugardögum, en þetta er allt gert af því okkur líður kannski best í kringum hvert annað.“

Sítengd og sambandslaus

Dóri víkur síðan að þeirri glötuðu þversögn að „á öld þar sem við erum einhvern veginn búin að samtengja okkur að fullu með samfélagsmiðlum þá virðumst við um leið hafa misst sambandið við hvert annað.“

Ætla má að boðskapur verksins sé vel til þess fallinn að æra óstöðuga á netinu, en er Dóri tilbúinn til þess að lenda í hakkavél samfélagsmiðlanna fyrir að leyfa sér að eyma óþverrann sem þar kraumar?

„Að sjálfsögðu er ég ekkert tilbúinn í það. Það er enginn tilbúinn í það. En veistu hvað? Þetta er ekki árás. Þetta er bara verk um fjórar persónur sem eru lokaðar inni á aðalskrifstofum Reykjavíkurborgar af öryggisástæðum, en það fjallar líka um einangrun og þessa tilfinningu sem varð til í Covid þegar maður sat eftir einn inni hjá sér með ekkert nema þær ákvarðanir sem maður hafði tekið í lífinu.“