Frá og með 1. janúar 2023 verða börn Jóa­kims Dana­prinsar og Alexöndru greifynju svipt titlum sínum og fá ekki lengur nafn­bótina prins og prinsessa. Þess í stað verður ein­göngu vísað til þeirra sem greifinn og greif­ynjan af Mon­pezat.

Danska ríkisútvarpið hefur eftir Alexöndru að hún sé í sjokki vegna málsins. Hún segir að hún upp­lifi málið þannig að börn hennar hafi verið úti­lokuð frá konungs­fjöl­skyldunni. Um er að ræða Nikolai, Felix, Hin­rik og Aþenu. Alexandra er móðir Felix og Nikolai.

Í til­kynningu frá fjöl­skyldunni segir að verið sé að taka til í titlum fjöl­skyldunnar, svo ekki of margir verði kallaðir prinsar eða prinsessur.

„Við erum sorg­mædd og í sjokki. Þetta kemur eins og þruma úr heið­skíru lofti og börnin skilja ekki hvers vegna titlar þeirra eru teknir frá þeim,“ segir Alexandra, að því er fram kemur í frétt danska miðilsins.

Þá hefur DR eftir Jakob Steen Ol­sen, blaða­manni á Berlingske sem skrifar um dönsku konungs­fjöl­skylduna að það sé skrítið að Alexandra bregðist svo harka­lega við, því það sé ekki venjan að á­kvörðunum Margrétar Þór­hildar Dana­drottningar sé and­mælt opin­ber­lega.

Að sögn Ol­sen skilur hann ekki hvers vegna að fjöl­skylda Joachim sé svona leið yfir á­kvörðunni, þar sem þetta snúist ekki um peninga.

Kjafta­saga fór af stað um að slæmt sam­band væri á milli drottningarinnar og Jóa­kims sonar hennar. Sjálf vísar drottningin því al­farið á bug að því er fram kemur í um­fjöllun DR.

Þá segir í frétt miðilsins að það veki at­hygli að börn Frið­riks og Maríu fái að halda þeirra titlum sem prinsar og prinsessur.