Banda­ríska söng­konan Dolly Parton til­kynnti fylgj­endum sínum hress og kát á sam­fé­lags­miðlinum Twitter að hún væri í þann mund að fá skammt af eigin meðali, það er sínu eigin bólu­efni, í sér­stöku mynd­bands­á­varpi.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá gegndi söng­konan þungar­vigtar­hlut­verki í því að styðja við rann­sóknir og fram­leiðslu á CO­VID-19 bólu­efni lyfja­fyrir­tækisins Moderna. Hún styrkti rann­sókn fyrir­tækisins um því sem nemur 135 milljónum ís­lenskra króna.

„Vin­sam­legast ekki hika!“ sagði hún áður en hún brast í söng líkt og um hennar þekktasta lag væri að ræða. „Bólu­efni, bólu­efni, bólu­efni, ég bið ykkur ekki hika,“ syngur söng­konan. „Því þegar þið eruð dauð er það að­eins of seint,“ segir hún svo og hlær.

Hún viður­kennir að málið sé þó graf­alvar­legt þrátt fyrir eigin kímni. „Við ykkur bleyðurnar segi ég: Ekki vera svona miklir kjúk­lingar. Drífið ykkur og nælið ykkur í sprautu!“