Listakonan Katrín Helga Andrésdóttir, einnig þekkt sem Special-K, blæs til tónleika í Mengi, ásamt hljómsveitinni CYBER, sem samanstendur af þeim Sölku Valsdóttur og Jóhönnu Rakel. Tilefnið er útgáfa plötunnar LUnatic thirST sem kom út fyrr á árinu, en platan kom út í miðju kófi svo ekki gafst tími til uppskeru fyrr en nú.

Dólgslæti og spellvirki

Tónlistarkonurnar sem koma fram þekkjast allar af forni frægð, en þær voru meðal annars allar meðlimir í rappsveit Reykjavíkurdætra. „Við kynntumst samt löngu fyrr,“ segir Salka, sem sat ásamt Katrínu í ritstjórn skólablaðs Menntaskólans við Hamrahlíð fyrir nærri áratug. „Áður en ég hitti Katrínu fyrst hafði ég heyrt ótal sögur af dólgslátum hennar og var eiginlega bara mjög hrædd.“ Salka viðurkennir þó hlæjandi að Katrín hafi reynst vera besta skinn við nánari kynni. „Hún er ekki vitund ógnandi þótt hún reyni ítrekað.“

Salka og Jóhanna kynntust í prufum fyrir leikritið Galdrakarlinn í OZ. „Ég kolféll fyrir flutningi hennar þegar hún söng Mustang Sally í handstöðu,“ segir Salka hrifin. „Þegar við hittumst aftur í annarri lotu þá stressaðir þú mig samt ekkert smá mikið,“ skýtur Jóhanna inn í. „Þú sagðir mér að atriðið mitt væri alls ekki það sem þau væru að leita að.“ Það hafi mögulega verið ástæða þess að leikferillinn fór ekki lengra. Salka fórnar höndum og segist ekkert muna eftir atvikinu. „Ég byrjaði greinilega snemma að vinna spellvirki gegn þér,“ segir hún og þær hlæja.

Áður er stöllurnar kynntust voru þær nokkuð smeykar hver við aðra.

Sameina krafta sína

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og vinkonurnar hafa í síauknum mæli tekið þátt í listsköpun hverrar annarrar. Þannig hefur Katrín spilað á píanó í fjölda CYBER laga, Jóhanna búið til tónlistarmyndband fyrir Special-K og Salka tekið upp og hljóðblandað nýjustu plötu Katrínar.

„Ég kenndi henni Sölku líka það litla sem ég kann á bassa þegar við vorum í Berlín svo hún gæti komið fram með mér,“ segir Katrín, en Salka hefur iðulega troðið upp með Special-K.

Heimsfaraldur setti strik í reikninginn

Stöllurnar voru allar staddar erlendis þegar heimsfaraldur skall á, en þrátt fyrir útgöngu- og samkomubönn sátu þær ekki auðum höndum. „Við Salka nýttum tímann vel og gerðum plötuna VACATION sem kemur út núna í byrjun ágúst,“ segir Jóhanna. „Platan er gerð fyrir alla sem fengu ekki að kíkja í sólina í ár.“ Þær játa þó að það hafi verið fremur stressandi að vera fjarri fjölskyldu og vinum á svo undarlegum tímum.

Heimkoman til Íslands var kærkomin. „Ekki mikið COVID-vesen og allir atvinnulausir og til í að hanga með manni,“ bendir Salka á. „Ég elska náttúrulega líka ferska, ferska fiskinn hérna, en vatnið er verra en mig minnti.“

Hljómsveitirnar hafa lítið komið fram á Íslandi síðustu ár en þær hafa haslað sér völl erlendis og farið í tónleikaferðalög um Evrópu og víðar. Á föstudaginn koma sveitirnar því fram fyrir land og þjóð í fyrsta skipti í um tvö ár.

Listakonurnar koma iðulega fram í verkum hverrar annarrar.

Dans, glans og púffermar

Það er auðsjáanleg tilhlökkun og mikill metnaður í hópnum fyrir væntanlega tónleika. „Það er alltaf gaman að spila á Íslandi og það verður fróðlegt að sjá hvernig stemningin verður í salnum þegar það eru svona fáir ferðamenn á landinu.“

Öllu verður til tjaldað á föstudaginn og mega áhorfendur búast við sjónarspili og tilfinninga-óráði líkt og tíðkast í flutningi sveitanna. „CYBER mun frumsýna nýtt útlit og kóreógrafía hefur verið æfð í báðum böndum,“ ítrekar Jóhanna.

Áhorfendur mega búast við púffermum, bikiníbuxum og bleikum hljóðfærum. „Og hárgreiðslu sem þú getur ekki einu sinni ímyndað þér.“

Tónleikar stjarnanna fara fram í Mengi næstkomandi föstudag.