Fréttablaðið hefur gengið til samstarfs við heilsuvefinn Doktor.is. Samstarfið tekur meðal annars til vikulegra pistla eftir Teit Guðmundsson, lækni og ritstjóra vefsins, í Tilverunni, nýjum fréttahluta í fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins þar sem heilsu og lífsstíl verður gert hátt undir höfði. 

Doktor.is er elsti heilsuvefur landsins og er þar að finna mikið af upplýsingum um allt sem tengist almennri heilsu, sjúkdómum og veikindum. 

Lesendum Fréttablaðsins gefst kostur á að senda fyrirspurnir til lækna og hjúkrunarfræðinga Doktor.is með því að smella hér. Allar fyrirspurnir eru nafnlausar.

Slappleiki í fótum 

Ég er 68 ára og er með gigt en það sem er mér erfiðast að ganga. Ég er alltaf að detta og dreg fæturna og þær eru þungar - er hægt að gera eittthvað? Eða er þetta partur af því að eldast?

Ég er líka með meltingarsjúkdóm, er að taka mikið af lyfjum við þessu öllu. Ég er alltaf syfjuð og þreytt og á erfitt með heimilisstörfin. Ég skammast mín, ég er búin að lenda í tveimur minni háttar árekstrum t.d. við vegrið og staur, svo ég má ekki samkvæmt bóndanum keyra lengur  hvað gæti verið að?

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Þú spyrð hvað geti verið að, þú sért alltaf þreytt, syfjuð og dettin en um leið tekur þú fram sjúkdóma sem þú ert að taka lyf við. Gigtarsjúkdómar geta valdið þessum einkennum þínum en það getur meðferðin  við  þeim einnig gert.  Kúnstin er að finna rétta jafnvægið á milli þess að halda einkennum sjúkdómsins niðri og aukaverkana af lyfjunum.

Það er gott að bóndinn þinn vill hafa varann á varðandi akstur þar sem þú ert að lenda í óhöppum, átt erfitt með dagleg störf og vilt alveg örugglega ekki valda einhverjum skaða eða tjóni.

Ég ráðlegg þér að leggja spilin á borðið hjá þínum lækni og þið farið saman í að finna út hvað í þinni líðan er sjúkdómunum að kenna og hvað lyfjunum og hvort það sé eitthvað hægt að lagfæra þar til þess að þú getir betur notið lífsins og sinnt þínum verkefnum dagsdaglega.

Gangi þér vel