Við tókum þá ákvörðun að ganga til samstarfs við Fréttablaðið þar sem við höfum áður unnið saman að fræðslu á þeim vettvangi. Heilsan er okkur öllum hugleikin. Þetta er síbreytilegt umræðuefni og margþætt og mikill áhugi á heilsufarstengdum málum. Mér er sérstaklega hugleikið að koma þessum skilaboðum á framfæri og auka og viðhalda þekkingu almennings á sjúkdómum, áhættuþáttum heilsu, lífsstíl, mataræði og hreyfingu,“ segir Teitur sem hefur bjargfasta trú á að það skipti máli að vinna að forvörnum almennt og að fræðsla skipti sköpum. „Sérstaklega að hún sé trúverðug og fólk skilji það sem verið er að segja. Allir þeir fagaðilar sem koma að skrifum og þjónustu við Doktor.is eru sama sinnis að ég tel.“

Vikulegar greinar í Fréttablaðinu

Teitur mun skrifa greinar í Fréttablaðið á fimmtudögum. „Ég ritaði um árabil greinar í blaðið á þriðjudögum þar sem ég fjallaði um hin ýmsu málefni. Þær voru mikið lesnar og hef ég oft fengið að heyra að það væri gaman ef ég myndi taka það upp aftur. Ég ákvað því að slá til þegar ég var beðinn um vikulega pistla og hef algert frelsi til þess að skrifa um það sem mér liggur á hjarta eða vil koma á framfæri. Í sumum tilvikum tengjast greinar mínar umfjöllun efnis sem er verið að tækla í Fréttablaðinu og ég kem með minn vinkil á slíkt sem ég hef mjög gaman af.“

Löng saga Doktor.is

Vefsíðan Doktor.is er elsti heilsuvefur landsins. „Upphaflega var vefurinn þróaður í samstarfi við Netdoktor.dk sem er síða í Danmörku sem ætluð er til upplýsinga fyrir almenning um hin ýmsu málefni. Samstarfi við þá var hætt árið 2002 og nafninu breytt í Doktor.is og hefur vefurinn heitið það síðan,“ segir Teitur. Vefsíðan var seld nokkrum sinnum, síðast árið 2007 og hefur verið í umsjón Heilsuverndar frá þeim tíma og hafa starfsmenn hennar haldið utan um stýringu vefsins og efnistök.

„Ýmislegt hefur verið brasað og margir komið að vefnum. Töluverð vinna var lögð í það að geta frætt á einfaldan og skýran hátt en vefur eins og þessi tekur alltaf einhverjum breytingum og sömuleiðis innihald hans. Lengi vel var bloggsíða á vefnum sem við fjarlægðum þar sem erfitt var að hafa eftirlit með því svæði og ýmsar ráðleggingar gátu litið dagsins ljós þar sem voru ekki líklegar til að skila árangri.“

Viðamikill gagnagrunnur

Á Doktor.is er að finna margvíslegar upplýsingar um sjúkdóma og greinar um ýmsa fleti sem tengjast heilsufarsvanda. Greinaskrifin geta komið frá hinum ýmsu aðilum og eru að sögn Teits að sumu leyti tengd tíðaranda hverju sinni. „Á liðnum árum hefur til dæmis verið mikil umræða um mataræði og kúra og reynum við þá að hafa efni um það aðgengilegt.“

Margar greinar eru aðsendar frá fagfélögum eða sérfræðingum og geta fjallað um allt það sem tengist heilsu, heilbrigði og lífsstíl.

„Við erum með flokk sem heitir sjúkdómar þar sem þeir er teknir fyrir á skiljanlegan hátt. Í mörgum tilvikum eru gefnar leiðbeiningar og ráð varðandi þann vanda sem lesandinn er að fræðast um.“

Hægt að spyrja ráða

„Við höfum um langt skeið verið með opna fyrirspurnalínu þar sem fólk getur sent inn spurningar sem fagfólk á vegum okkar svarar. Þessi þjónusta hefur verið umtalsverð á síðastliðnum árum, við birtum svörin á vefnum almennt, en í sumum tilvikum er um að ræða persónuleg málefni og þá vísum við fremur til meðhöndlandi lækna,“ lýsir Teitur.

Ein vinsælasta síðan á vefnum fjallar um meðgöngu. Þar má sjá hvað gerist viku fyrir viku í þessu áhugaverða ferðalagi verðandi foreldra og greint frá við hverju megi búast.

Innra tengslanet fyrir fagfólk

Á Doktor.is er síða sem tengir saman hina ýmsu þjónustuaðila í heilbrigðiskerfinu. „Meiningin er að bæta verulega í þá þjónustu á næstunni og gefa fagfólki tækifæri til eigin skráningar líka svo þær séu skýrar og aðgengilegar. Slíkt getur nýst heilbrigðisstarfsfólki enn betur í tilvísunum sínum. Þá er verið að horfa til þess að það verði til ákveðið innra tengslanet fyrir fagfólk og svo ytri síða fyrir almenning. Með þeim hætti væri til dæmis hægt að átta sig á hvaða undirsérgrein læknir hefur, hvar hann starfar og á hvaða tíma, svo dæmi sé tekið. Þetta hefur lengi verið rætt í umhverfi lækna sjálfra og ekki síst sjúklinga. Þessa þjónustu má færa yfir á allar aðrar heilbrigðisstéttir í raun og veru.“

Vel sóttur vefur

Mikið efni er að finna á síðunni og talverð vinna fer í það hjá starfsfólki Heilsuverndar að hreinsa til, yfirfara eldri gögn og viðhalda síðunni. „Margir hafa nýtt sér síðuna til uppflettingar og sem heimild í verkefnum víða í skólakerfinu og námi almennt og viljum við gjarnan halda áfram að geta veitt slíka þjónustu,“ segir Teitur, en umferðin um vefinn er býsna mikil. „Lengi vel var hann einn af fjölsóttustu vefjum landsins. Ef þú leitar á leitarvélum í dag eftir ýmsum fróðleik tengdum heilsu kemur Doktor.is iðulega upp ofarlega á leitarvélum.“

Hann segir algengast að fólk leiti að upplýsingum um algenga sjúkdóma og vandamál á borð við hálsbólgu, lungnabólgu, bakverki, þvagfærasýkingar allt árið um kring. Þá sé meira lesið um flensu á þeim árstímum sem hún komi upp.

„Þess má geta að velflest efnið á vefnum kemur frá fagfólki og er ritskoðað og við viljum gjarnan að fólk geti treyst þeim upplýsingum sem það fær á vefnum. En það er líka stöðug vinna og við erum þakklát fyrir ábendingar ef eitthvað vantar eða ef hlutir hafa breyst. Það má til dæmis segja að grein um hálsbólgu standist tímans tönn því ekki er mikil þróun í þekkingu, greiningu og meðferð. Hins vegar þarf að endurskoða greinar um krabbamein, lífsstílssjúkdóma og aðra sjúkdóma þar sem sífellt eru að koma fram nýjar upplýsingar.“

Björt framtíð

„Við viljum færa þennan elsta og líklega yfirgripsmesta heilsuvef landsins á þann stað sem hann á heima, sem er í fremstu röð uppfletti- og fræðsluvefja landsins,“ svarar Teitur þegar hann er spurður að framtíðarsýn sinni fyrir Doktor.is. „Við viljum hafa efnið skiljanlegt og aðgengilegt og um leið bæta þjónustu bæði við fagfólk og almenning, til dæmis með meira samspili við notandann.“

Doktor.is bauð á sínum tíma fyrstur allra á landinu upp á rafræna endurnýjun lyfseðla. „Ég get vel hugsað mér að fjarheilbrigðisþjónusta með öruggum hætti geti verið hluti af framtíðarsýn vefsins enda langþekktasta vörumerkið á þessum vettvangi. Við höfum einnig rætt samstarfsfleti og nálganir varðandi forvarnir til yngri kynslóða. Þá tel ég að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu sé mikilvæg og netið spili stóran þátt í henni.“

Teitur telur eflingu heilsuvitundar og þekkingar almennings eina bestu fjárfestingu í vestrænum samfélögum. „Vefur eins og Doktor.is getur klárlega komið sterkt inn í slíkt í samstarfi við aðra.“