Ég hef tekið fjórðung úr töflu af Imovane í nokkur misseri og langar að hætta þar sem ég á samt sem áður erfitt með að sofna og þarf núorðið oft að bæta við öðrum fjórðungi eftir að hafa bylt mér í kannski tvo til þrjá tíma. Hef reynt að hætta alveg og ekki sofnað í allt að tvær nætur og finnst ástandið komið á það stig að langa að hætta alveg og spyr því hvort nokkur önnur leið sé til sem gefist hafi einhverjum einhvers staðar?
Sæl/ll
Það eru ýmsar leiðir til að bæta svefn fyrir utan svefnlyf ef þú hefur ekki reynt þær áður. Mikilvægt er að huga að svefnvenjum og áreiti, sérstaklega snjalltækjum, tölvuskjám og sjónvarpi. Slíkt ætti ekki að vera í svefnherbergi og ekki að vera í notkun amk 1 klst f svefn. Þú ættir líka að skoða matar og drykkjarvenjur t.d. koffín og örvandi efni ýmis konar og sterkan kryddaðan mat svo dæmi séu tekin. Hreyfing getur verið skynsamleg, kynlíf einnig og svo almenn slökun og hugleiðsla. Hugræn atferlismeðferð er líka mjög góð til að bæta úr svefntruflunum en það eru ýmsir aðilar að bjóða uppá slíkt.
Reyndu þessar leiðir fyrst, áður en skoðaðar eru aðrar leiðir t.d. með lyfjum
Gangi þér vel
Meira á www.doktor.frettabladid.is.
Fréttablaðið hefur gengið til samstarfs við heilsuvefinn Doktor.is. Samstarfið tekur meðal annars til vikulegra pistla eftir Teit Guðmundsson, lækni og ritstjóra vefsins, í Tilverunni, nýjum fréttahluta í fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins þar sem heilsu og lífsstíl verður gert hátt undir höfði.
Doktor.is er elsti heilsuvefur landsins og er þar að finna mikið af upplýsingum um allt sem tengist almennri heilsu, sjúkdómum og veikindum.
Lesendum Fréttablaðsins gefst kostur á að senda fyrirspurnir til lækna og hjúkrunarfræðinga Doktor.is með því að smella hér. Allar fyrirspurnir eru nafnlausar.