Það að lenda í erfiðri lífsreynslu þekkja margir, það eru mörg áföll sem geta dunið á einstaklingum og er mikilvægt að geta unnið með þau, áttað sig á því hvað gerðist og síðast en ekki síst reynt að koma í veg fyrir endurtekningu. Hægt er að flokka áföll niður með ýmsum hætti, en ein skilgreining áfalla er að þar komi fram sterk streituviðbrögð við óvæntum eða skyndilegum atburðum. 

Undir þetta flokkast náttúruhamfarir ýmiss konar, slys líkt og umferðarslys eða vinnuslys, og áföll af mannavöldum þar sem má nefna andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Þá er rétt að benda á að mikið álag um lengri tíma líkt og einelti, ítrekað heimilisofbeldi, óöryggi líkt og við stríðsátök og margt fleira getur einnig framkallað líkamleg sem og andleg einkenni.

Iðulega upplifir fólk að öryggi þess sé með einhverjum hætti ógnað og að það missi stjórn á aðstæðum eða geti ekki brugðist við þeim. Upplifunin og þá einnig eftirstöðvar eftir áfallið eru að einhverju leyti í samhengi við styrk þess. Það má taka sem dæmi að atburður þar sem bráð lífshætta steðjar að skapi sterkari viðbrögð en næstum því slys eðli málsins samkvæmt. Mjög mikilvægt er að átta sig á því að áfallastreituviðbragð er eðlilegt í sjálfu sér, en ef þær tilfinningar, einkenni og líðan sem fylgja áfallinu hverfa ekki er skynsamlegt að leita sér aðstoðar.

Sálrænn stuðningur er þó mikilvægur strax í upphafi svo koma megi í veg fyrir að einkenni festist í sessi, en þá er oft talað um áfallastreituröskun. Ákveðinn samhljómur er með því hvernig unnið Eftirstöðvar áfalla er með þá einstaklinga sem hafa lent í áföllum og í framhaldi röskunum ýmiss konar þeim tengdum. Kvíði og þunglyndi, lágt sjálfsmat og jafnvel að viðkomandi kenni sér um það sem á undan hefur gengið eru algengar birtingarmyndir, sérstaklega ef um er að ræða andlegt og kynferðislegt ofbeldi.

En slíkt getur þó auðvitað einnig tengst öðrum áföllum. Ýmis líkamleg einkenni geta fylgt og rannsóknir sýna að heilsufari þeirra sem hafa lent í áfalli er líklegra til að verða ábótavant og að ævilengd þeirra jafnvel styttist, sérstaklega ef um ítrekuð áföll er að ræða. Vinir, ættingjar, viðbragðsaðilar, prestar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og læknar koma í flestum tilvikum á einhvern hátt að stærri atburðum eins og til að mynda slysum eða hamförum og þá tiltölulega skjótt á meðan önnur áföll kunna að grafa um sig án aðkomu þeirra mjög lengi.

Dæmigert er að þar sem kann að fylgja skömm eða aðrar viðlíka tilfinningar séu þeir færri, ef nokkur, sem kemur að máli um lengri eða skemmri tíma. Lykilatriði er að einstaklingar sem hafa gengið í gegnum áföll geti fundið til trausts á þeim sem koma að uppvinnslu og meðhöndlun mála og að tekið sé á þeim með viðeigandi hætti. Það á við í samhengi við einelti, andlegt og líkamlegt ofbeldi og þá ekki síst kynferðislegt.

Fréttablaðið hefur gengið til samstarfs við heilsuvefinn Doktor.is. Samstarfið tekur meðal annars til vikulegra pistla eftir Teit Guðmundsson, lækni og ritstjóra vefsins, í Tilverunni, nýjum fréttahluta í fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins þar sem heilsu og lífsstíl verður gert hátt undir höfði. 

Doktor.is er elsti heilsuvefur landsins og er þar að finna mikið af upplýsingum um allt sem tengist almennri heilsu, sjúkdómum og veikindum. 

Lesendum Fréttablaðsins gefst kostur á að senda fyrirspurnir til lækna og hjúkrunarfræðinga Doktor.is með því að smella hér. Allar fyrirspurnir eru nafnlausar.