Mikil umræða hefur átt sér stað um rafrettur að undanförnu og er sérstakt áhyggjuefni hversu margir unglingar virðast nota veipur eða rafsígarettur. Nýlegir lýðheilsuvísar Embættis landlæknis sýna að notkun 10. bekkinga er veruleg, ríflega 22% þeirra höfðu veipað einu sinni eða oftar í mánuði. Þessar niðurstöður eru svo sláandi að Læknafélag Íslands sá sig knúið til að leggja fram ályktun á aðalfundi félagsins í byrjun nóvember, þar sem stjórnvöld eru hvött til þess að stöðva núverandi fyrirkomulag á sölu á rafrettum. Þá er bent á að rafrettur séu hættulegar í sömu ályktun og að það skuli stefnt að sölu þeirra með öðrum hætti til þeirra sem hyggjast nota þær til að hætta að reykja, til dæmis í apótekum. Víða erlendis eru viðraðar svipaðar áhyggjur.

Af hverju eru veipur hættulegar börnum?

Vísindamenn eru enn að rífast um langtímaáhrif af veipum/rafsígarettum og er ljóst að skaðsemi þeirra birtist öðruvísi en við hefðbundnar reykingar. Í flestum veipum er um að ræða vökva sem er hitaður og myndar gufu sem fólk andar að sér og í gufunni er nikótín ásamt ýmsum öðrum efnum. Nikótín er ávanabindandi efni og hefur verið bent á að slíkur ávani geti aukið líkur á notkun á tóbaki, t.d. sígarettum, í framtíðinni en einnig fíkniefnum. Slíkt er enn umdeilt og ólíklegt að sú umræða verði til lykta leidd á næstunni. Góð regla er að meðan slík óvissa er til staðar er best að byrja alls ekki.

Mjög er rætt um áhrif nikótíns á heilann og hafa læknar áhyggjur af neikvæðum breytingum á athygli, lærdómsgetu, lundarfari og hvatastjórnun. Þá vísa sérfræðingar til þess að nikótín raski myndun taugaboða í heilanum þegar hann er að þroskast.

Áhættan við veipur getur einnig falist í þeim aukaefnum sem eru í gufunni fyrir utan nikótín líkt og rokgjörnum lífrænum efnasamböndum, þungmálmum, smáögnum og ýmsu fleira sem getur mögulega valdið krabbameini, lungnasjúkdómum og öðrum vanda.

Allt þetta er svo fyrir utan möguleg eitrunaráhrif af því að kyngja eða fá á sig vökvann sjálfan, t.d. í augu eða á húð. Þá má ekki gleyma því þegar tækin hafa sprungið eða ofhitnað með margvíslegum afleiðingum fyrir einstaklinginn sjálfan og hans nánasta umhverfi.

Það er auðvitað öllum ljóst að samanburður milli þess að reykja tóbak og að nota rafsígarettur er verulegur en hér er ekki verið að bera saman slíka neyslu. Heldur hvort það sé skynsamlegt að hindra aðgang ungmenna að rafsígarettum, enda algerlega óumdeilt að það að nota slíkt tæki er hættulegra heilsu þeirra en að nota ekkert og byrja aldrei.

Hvað er til ráða?

Besta forvörnin er að foreldrar hvorki reyki né noti veipur og séu góðar fyrirmyndir fyrir börn sín. Þeir sem veipa og eru fullorðnir ættu að vita að notkun á rafrettum ætti einungis að vera tímabundin og þá sem aðstoð til að hætta reykingum, aðrar ábendingar eru ekki til, heldur má flokka sem fíkn. Gott er að byrja umræðuna snemma og hvetja börnin til þess að halda sig frá öllu tóbaki sem og rafrettum. Fræðsla er lykilatriði og að upplýsingar séu settar fram á aðgengilegan og skýran hátt. Þá er líklegt að löggjöf muni skila árangri til þess að verja börn og unglinga fyrir slíkri neyslu enda ekkert sem styður við slíkt nema síður sé.


Fréttablaðið hefur gengið til samstarfs við heilsuvefinn Doktor.is. Samstarfið tekur meðal annars til vikulegra pistla eftir Teit Guðmundsson, lækni og ritstjóra vefsins, í Tilverunni, nýjum fréttahluta í fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins þar sem heilsu og lífsstíl verður gert hátt undir höfði. 

Doktor.is er elsti heilsuvefur landsins og er þar að finna mikið af upplýsingum um allt sem tengist almennri heilsu, sjúkdómum og veikindum. 

Lesendum Fréttablaðsins gefst kostur á að senda fyrirspurnir til lækna og hjúkrunarfræðinga Doktor.is með því að smella hér. Allar fyrirspurnir eru nafnlausar.