Þegar samanbit er heilbrigt og eðlilegt er samstarf gott milli tanna, tyggingarvöðva og kjálkaliða.
Það skiptir miklu máli að svo sé, þegar fólk tyggur, talar, syngur, geispar, kyngir og brosir.

Hvað getur raskað þessari samhæfingu?

 • Ef fólk missir nokkrar tennur
 • Ef tennur eru skakkar og þvinga samanbitið
 • Ef fólk gnístir eða pressar saman tönnum
 • Ef samanbit er of lágt eða óstöðugt
 • Ef gervitennur eru lélegar
 • Ef fólk verður fyrir höggi

Við slíkar aðstæður geta bitsjúkdómar gert vart við sig!

Hver eru þá helstu einkenni bitsjúkdóma?

 • Höfuðverkur og eyrnaverkur
 • Eymsli og þreyta í kinnum og kjálkum
 • Sársauki og óþægindi við tyggingu og mikla opnun
 • Slitfletir á tönnum og aumar tennur

Hvað er þá til ráða?

Leitaðu til tannlæknis og hann mun skoða eftirfarandi:

 • Eru tyggingarvöðvar aumir?
 • Er eðlileg hreyfigeta í kjálkaliðum; heyrast smellir í þeim?
 • Er samanbit tanna eðlilegt?
 • Eru tennur aumar og slitnar af gnísti?

Hvaða meðferð er hægt að beita?

Meðferðin sem beitt er er kölluð bitmeðferð. Hún felst í því að viðkomandi fær bithlíf sem er harður glær gómur, sem minnkar álag af kjálkaliðum og tyggingarvöðvum og skapar stöðugt samanbit. Flestir sem fara í meðferð við bitsjúkdómum fá slíka bithlíf. Tannlæknirinn tekur mát af báðum gómum og smíðar síðan góm sem oftast er settur í efri góm. Yfirleitt nægir að hafa hann uppi á nóttunni. Ásamt notkun bithlífar þarf fólk að gera æfingar til slökunar og þjálfunar fyrir kjálkaliði og tyggingarvöðva. Margir eru sendir til sjúkraþjálfara sem meðhöndla vöðvabólgu í tyggingarvöðvum og hnakka, herðum og hálsi og takmarkaða hreyfigetu í kjálkaliðum. Gigtarlyf og verkjalyf eru notuð í slæmum tilfellum.

Sjúkdómur: Tennur og munnur