Það er ævintýri að vera í skóla, bæði fyrir börnin sem og þá sem kenna þeim og leiðbeina. Mikil samvinna allra er lykillinn að góðri niðurstöðu og gera sér grein fyrir fjölbreytileika og mismunandi hæfileikum einstaklinganna. Að rækta þá og þroska á sama tíma og sjóndeildarhringurinn víkkar sem og að ná grunnfærni er listin í kennslunni.

Andleg líðan barna okkar er mjög mikilvæg fyrir árangur í skóla og samhengið milli þess er augljóst fyrir þá sem að málum koma, en oft getur verið erfitt að átta sig á vanlíðan þeirra. Umræðan hefur verið sterk og má segja að vakning hafi orðið á undanförnum árum, en það verður að bæta um betur þegar rætt er um einelti, virðingu og félagsleg samskipti einstaklinga sem eru að mótast. Þetta eru atriði sem við foreldrar og skólastjórnendur berum ábyrgð á að sé stöðugt í huga barna okkar og að ekki sé gefinn neinn afsláttur á virðingu og kærleika fyrir náunganum, sama hver hann er, hvað þá heldur hvaðan hann kemur. Sameiginlega byggjum við sterkari einstaklinga og samfélag með þessum hætti. Góður svefn er undirstaða þess að geta tekið við upplýsingum og unnið úr þeim og geymt þær til síðari tíma, sá sem er svefnlaus eða svefnlítill er vanstilltur og pirraður, sem getur haft gífurleg áhrif á umhverfi viðkomandi. Börn á aldrinum 6-12 ára þurfa að jafnaði 10-11 klst svefn en 12-18 ára eru talin þurfa 9-10 tíma að jafnaði, skynsamlegt er að reyna að fylgja því.

Næring og hreyfing hefur einnig verið umtalsefni undanfarinna ára, við sjáum ofþyngd og hreyfingarleysi haldast í hendur. Börn þurfa mikla næringu á meðan þau eru að vaxa úr grasi, en það þarf að gæta þess að hún sé í jafnvægi. Mikilvægt er að huga að því að kjarngóður morgunverður sé hluti af því að byrja daginn. Streita, álag og tímaskortur foreldra getur ekki verið afsökun fyrir því að börn fái ekki tíma til að borða áður en þau fara af stað að morgni. Þá er öllum hollt að ganga eða hjóla í skólann svo lengi sem veður leyfir. Það styrkir einstaklinginn öllu jöfnu, ýtir undir að hann vakni vel og hafi komið gangverki líkamans af stað auk þess sem hann hefur fengið súrefni sem undirbúning í að takast á við krefjandi verkefni dagsins. Hreyfing og íþróttaiðkun er í dag sem betur fer vel aðgengileg, börnum er víða boðið uppá ferðir til og frá skóla á æfingar og er öllum hollt að stunda einhverjar íþróttir. Óeðlilegur þrýstingur eða of miklar kröfur og æfingaálag er hins vegar neikvætt og lítið uppbyggilegt.

Gott nesti skiptir miklu máli og næringarríkur hádegismatur í skólanum. Við foreldrar treystum því að þeir aðilar sem leggja sig fram um að gefa börnum okkar að borða kappkosti að maturinn sé fjölbreyttur og hollur svo hann henti sem flestum. Slíkt hefur gengið prýðilega, en það má þó aldrei slaka á kröfunum og verða skólastjórnendur og þeir sem bera ábyrgð á því fæði sem framreitt er að vera móttækilegir fyrir uppbyggilegri gagnrýni komi hún fram og bregðast við henni. Samstarf skóla og foreldra er þarna mjög mikilvægt.

Skóli er ekki geymslustaður, heldur mætti líkja honum við krefjandi vinnustað þar sem einstaklingurinn er stöðugt að bæta þekkingu sína og færni auk þess að vera í raun í samkeppni ef nota má það orð með tilliti til framtíðarmöguleika sinna. Nemandinn verður stöðugt að mæta nýjum áskorunum á sama tíma og hann er að mótast líkamlega og félagslega. Ég veit ekki um neinn vinnustað eða verkefni í framtíðinni sem krefst viðlíka. Það má því með sanni segja að á þessum tíma í lífi hvers einstaklings skilum við miklu og flóknu verki og er öllum ljóst að til þess að ná árangri verða undirstöðuatriði að vera á hreinu. Heilsan í víðasta samhengi er stærsti hluti þess að okkur takist það.