Við erum bókstaflega að vinna úr dögurðinum og næringarefnunum sem honum fylgja allan vökudaginn og fram á nótt. Á tímum heimsfaraldurs getur verið auðvelt fyrir eyþjóð að einangra sig og gleyma því að Jörðin samanstendur af óteljandi áhugaverðum stöðum sem gaman er að heimsækja og óramagni af menningarheimum sem má kynnast að einhverju leyti í gegnum matarmenningu þjóðanna.

Því morgunverðurinn er síður en svo sá sami um víða veröld og er það mjög misjafnt hversu mikið er lagt í þessa mikilvægustu máltíð dagsins. Sumir gera mikið úr morgunmatnum á meðan aðrir halda málsverðinum á léttari nótunum. Hér á Íslandi er kaffi, lýsi og Cheerios eða hafragrautur staðalbúnaður meðalfjölskyldunnar. Í Frakklandi grípa menn oft í heiðarlegt smjördeigshorn með kaffinu og víða í Bandaríkjunum má finna sérstaka morgunverðarstaði þar sem reiddar eru fram pönnukökur löðrandi í hlynsýrópi, franskt eggjabrauð, kartöflukökur og ýmiss konar gúmmulaði.

Brasilískar brauðbollur

Morgunverðurinn er stór máltíð í Brasilíu en sem dæmi merkir orðið café da manhã sem er portúgalska og Brasilíumenn nota yfir morgunmat, „morgunkaffi“. Þá er sterkt kaffi meginatriðið og því fylgir ýmist smákruðerí eins og pão de queijo, eða bollur með ostabragði, skinka, ostur, pão frances, sem eru litlar brauðbollur borðaðar með osti, eða ávextir líkt og papaja.

Kínverskur kvöldmatur

Kínverskur morgunmatur minnir um margt á hádegisverð eða jafnvel kvöldmat. Þar samanstendur dögurðurinn af núðlum, hrísgrjónum, kjúklingi, steiktu grænmeti, dim sum, gufusoðnum brauðbollum og heitum súpum eins og congee. Þá er sérstaklega algengt að fylgi steiktar brauðstangir sem kallast tiao sem dýft er í heita sojamjólk.

Smjördeigshornin er einfalt að grípa með sér á kaffihúsinu og maula á leið til vinnu.

Skandinavískt smurbrauð

Danskur dögurður er, eins og víða á Norðurlöndum, eins konar smurbrauð með ýmsu áleggi og stundum fylgir sætabrauð. Grunnurinn er oftast rúgbrauð, en í Svíþjóð skipta menn út rúgbrauðinu fyrir „spröd knäckebröd“ eða stökkt hrökkkex. Áleggið er ýmist ostur, köld skinka eða pylsusneiðar, hunang, sulta, harðsoðin egg, grænmeti og jafnvel súkkulaði.

Gríska „gúrtin“

Í Grikklandi og víðar við Miðjarðarhafið má rekast á morgunverð sem samanstendur af ýmsum réttum. Vinsælastar eru bökur eins og spanakopita með spínati eða kagianas með eggjum, tómötum og fetaosti. Oft er borin fram með þessu grísk jógúrt með hunangi og valhnetum, sætabrauð og kjötþynnur. Krítverskur morgunmatur í sinni fyllstu mynd samanstendur af ólífum, osti, tómat, gúrku, jógúrt, brauði, brauðstöngum, hunangi, harðsoðnum eggjum, appelsínusafa og kaffi eða tei.

Léttleikinn í fyrirrúmi

Líkt og franski og spænski staðalmorgunverðurinn er sá ítalski nokkuð léttur. Ásamt cappuccino grípa menn oft smjördeigshorn eða ítalskar þríbökur. En líkt og hjá Spánverjum og Frökkum er hádegismaturinn og kvöldverðurinn í þyngri kantinum, oft margrétta.

Er þetta þinn tebolli?

Í Bretlandi er vinsælt að byrja daginn á svokölluðu „british fry-up“ með steiktum eggjum, pylsum, þykkskornu beikoni, bökuðum baunum, sveppum, kartöflukökum og ristuðu brauði. Skotar bæta við skoskum blóðmör og lifrarpylsu og Írar fá sér hvítan búðing og sódabrauð. Alla jafna er tebolli borinn fram með þessum herlegheitum.

Japanskur morgunverður með hrísgrjónum, linsoðnu eggi, miso-súpu og tebolla.

Hollt og gott

Japanskur morgunverður, sem oft er kallaður wafuu, samanstendur af mörgum smáréttum. Þar má meðal annars nefna hrísgrjón, miso-súpu, gerjaðar sojabaunir, nori, sýrt grænmeti, fisk og eggjakökur.

Seðjandi í upphafi dags

Í Mexíkó borða menn staðbundinn og seðjandi morgunverð. Þar má telja rétti eins og chilaquiles, sem eru steiktar maísþynnur með grænu eða rauðu salsa, baunakássu, rifnum kjúklingi eða jafnvel afgöngum frá kvöldmatnum. Huevos rancheros, sem er hefðbundinn mexíkóskur eggjaréttur, er líka mjög vinsæll.