Fólk

Dönsuðu fram á nótt í jóga­partý um verslunar­manna­helgina

Hátt í þrjá­tíu manns komu saman á bænum Öxl yfir verslunar­manna­helgina á svokallaða jógahelgi. Þar var drukkið og dansað fram á nótt eins og annars staðar.

„Við fundum hvað það var mikill kraftur að vera allar saman og við vildum bjóða sem flestum með okkur í þetta partý.“ Mynd/Aðsend

Hátt í 30 manns komu saman ásamt börnum sínum á svokallaða jógahelgi sem haldin var á bænum Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi yfir verslunarmanna-helgina. Á Öxl er starfrækt gistiheimili með jógasal, saunu og svitahofi. 

Viðburðirnir sem boðið var upp á snérust um að næra líkama og sál með jóga, útiveru, hugleiðslu og heilnæmri vegan fæðu. Öxl og RVK Ritual héldu utan um dagskránna. Fréttablaðið ræddi við Evu Dögg Rúnarsdóttur, jógakennara og einn stofnanda RVK Ritual.

„Við vorum fjórar vinkonur sem stofnuðum þetta systralag og fannst við verða að deila því með restinni af heiminum. Við fundum hvað það myndast mikill kraftur þegar við erum allar saman og við vildum bjóða sem flestum með okkur í þetta partý. Það var að gera eitthvað ótrúlegt fyrir okkur og við hugsuðum að allir ættu skilið að fá það sem við værum að fá frá hvor annarri og úr varð að við ákváðum að gera þetta að einhverju stærra,“
segir Eva um RVK Ritual, sem hún stofnaði í júní á þessu ári, ásamt Önnu Sóley, Bellu Morgan og Dagnýju Berglindi.

Fæðingarstaður Axlar-Bjarnar

Aðspurð um Öxl segir hún að jörðin sé þekkt í þjóðsögum, þar fæddist og bjó Axlar-Björn, eini fjöldamorðingi Íslands, sem myrti ferðamenn sem áttu leið hjá bænum eftir að hann hafði rænt þá aleigunni seint á 16. öld.

Árið 2016 keyptu þau Þrúður Anna Briem, Ásgeir Jóel Jakobsson, Egill Bjarnason og Guðni Þorberg Svavarson jörðina, þar hugðust þau gerast jógabændur. Þau byrjuðu á því að gera gamla bóndabæinn upp og breyttu honum í gistiheimili sem síðan opnaði í ágúst sama ár. Sumarið á eftir hófu þau að breyta gamalli vélarskemmu í jógasal. Egill og Guðni hafa sest að á Öxl og byggðu sér hús á lóðinni. 

„Þeir eru þrír strákarnir sem keyptu jörðina Öxl og eru búnir að gera upp húsin þar. Þeir eru með gistiheimili sem er með svona vegan „bed and breakfast“ og jógasal, þannig að þeir eru hægt og rólega að gera Öxl að andlegum grænmetis-griðarstað. Þar hafa áður verið allskonar viðburðir en þetta var í fyrsta skipti sem við unnum saman, Öxl og RVK Ritual,“ segir Eva.

Eva Dögg í góðra vina hópi. Mynd/Aðsend

Hún segir verslunarmannahelgina hafa orðið fyrir valinu þar sem hún sé lengri en venjulegar helgar og þess vegna hafi verið hægt að nýta allan sunnudaginn fyrir viðburðinn. „Við vildum hafa einhvern skemmtilegan viðburð yfir verslunarmanna-helgina fyrir þá sem voru ekki alveg að fara í þessa týpísku verslunarmannahelgarstemningu.“  

Ananda Marga jógamunkurinn, Dada, var sérstakur gestur á Öxl. Hann hélt fyrirlestra og vinnustofur fyrir áhugasama ásamt því að vera til taks ef einhver vildi drekka af viskubrunni hans. Dada hefur verið jógamunkur frá því að hann var átján ára og hefur starfað víða um heim við hjálparstörf af ýmsu tagi. „Hann á eiginlega ekki heima neins staðar nema bara í túrbaninum sínum,“ segir Eva og flissar.

„Hann á eiginlega ekki heima neins staðar nema bara í túrbaninum sínum.“ Mynd/Aðsend

Dagskráin var fjölbreytt og hófst á föstudagskvöldinu klukkan sjö. Snemma á laugardaginn byrjaði dagskráin á kiirtan, aðferð sem notuð er til þess að undirbúa hugan fyrir hugleiðslu með möntrusöng og jafnvel dansi.

Ýmislegt var í boði yfir daginn, fyrirlestur og vinnustofa með bandaríska munknum Dada, kakóathöfn þar sem þátttakendur drekka hreint kakó sem slakar á taugunum, ýtir undir framleiðslu gleðiborðefnisins serótóníns og lækkar streituhormónið kortisól. 

Dagskránni þann daginn lauk svo með jógadjammi þar sem Sigrún Halla jógakennari leiddi gestina í hamslausan dans og kærasti hennar Ívar Pétur sá um tónlistina. „Svo var bara jógadanspartý langt fram á nótt,“ segir Eva og bætir við að það hafi verið verulega skemmtilegt og dansað bæði inni og úti.

Kvöldvaka við varðeld

Á sunnudeginum var svo meðal annars kvöldvaka við varðeld og endað á því að skála í heilsudrykki yfir lestri í tarot spil. „Á hverju kvöldi vorum við alltaf með einhverja heilsudrykki sem hafa góð og skemmtileg áhrif á mann, voru samt ekki áfengir heldur allskonar drykkir sem hafa góð áhrif á andlega og líkamlega heilsu.“

Að auki var boðið upp á vegan-fæði sem var að mestu lífrænt. „Við vorum með lífrænt kaffi frá Reykjavík Roasters og kombucha frá Kombucha Iceland, Kakó frá Kamillu, grænmeti frá Bændum í bænum, brauð frá Brauð & co og allskonar góðgæti frá Himneskt. Þetta var algjört lúxusfæði sem Bella Morgan sá um að matreiða.“

„Þetta var algjört lúxusfæði sem Bella Morgan sá um að matreiða.“ Mynd/Aðsend

Aðspurð um veðrið segir Eva að það hafi verið lygilega gott allan tímann. „Um leið og klukkan varð sjö á föstudeginum þá fóru skýin og sólin skein þangað til þetta var búið í hádeginu á mánudaginn, þá fór aðeins að blása, en það var alveg ótrúlega gott veður allan tímann og það var einhver sérstök orka yfir þessum stað.“

Að lokum segir Eva að stefnt sé á að halda svipaðan viðburð á næsta ári og vonar að jógahelgin á Öxl verði alltaf hluti viðburða um verslunarmannahelgina. „Fyrir þá sem eru ekki í þjóðhátíðargírnum en vilja samt brjóta upp hversdaginn.“

„Það var alveg ótrúlega gott veður allan tímann og það var einhver sérstök orka yfir þessum stað.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Kynningar

Léttum fólki lífið

Fólk

Fólk velur að eiga gott hjónaband

Fólk

Glasafrjóvgun í Prag skilaði tvíburum

Auglýsing

Nýjast

Efna til hand­rita­sam­keppni fyrir hljóð­bækur

Dorma býður frábært úrval fermingarrúma

Bræður geðhjálpast að

Hreyfiafl þarf til að knýja mann áfram

Reyndi að komast um borð í flugvél nakinn

Dæm­ir um trú­v­erð­ug­­leik­a þekktr­a kvik­­mynd­a­­sen­a

Auglýsing