Þegar djúsar og samlokur eru annars vegar er ekki komið að tómum kofanum hjá Jóni Gunnari Geirdal sem ruddi slíkum veitingum braut á Íslandi þegar hann stofnaði Lemon fyrir átta árum.

Eftir að hann seldi hlut sinn í Lemon fyrir tveimur árum sneri hann sér að súrdeigspitsum undir merkjum Blackbox en snýr nú aftur á kunnuglegar slóðir með safa- og samlokustaðnum Djúsí sem verður opnaður við hlið Blackbox í Borgartúni um miðjan júní.

„Það er greinileg þörf fyrir djús og samlokur í Borgartúninu og við hjá Blackbox vildum svara því kalli með því að útvíkka þá heildarhugmynd enn frekar með þessari fersku og safaríku viðbót,“ segir Jón Gunnar og auðheyrt að hann stendur enn undir nafnbótinni frasakóngur Íslands. „Og nú er komið að því að flytja Blackbox erfðaefnið út í samlokur og djúsa með þessum nýja stað, Djúsí by Blackbox.“

Sama erfðaefnið

Jón Gunnar segir Blackbox flatbökurnar hafa verið í stöðugri þróun með áherslu á bragðgott súrdeig. „Við höfum til dæmis stækkað vörulínu okkar í Krónunni jafnt og þétt en frá upphafi hefur okkur langað að fara lengra með vörumerkið og Djúsí er þannig hluti af stærra verkefni og kemur inn á þennan markað með háleit markmið um að gera sérlega ljúffengar samlokur og geggjaða djúsa.“

Jón Gunnar bætir við að hann búi að yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af djúsa- og samlokugeiranum eftir Lemon-árin. „Við þetta bætist svo botnlaus þekking sælkerans og félaga míns, Karls Viggós Vigfússonar, sem kom sterkur inn þegar við vorum að þróa Djúsí.“

Máli sínu til stuðnings vindur Jón Gunnar sér síðan í upptalningu á fyrri afrekum Viggós, sem er jafnvígur á súkkulaði og ís. Annars vegar sem einn stofnenda Omnom og Skúbb hins vegar. „Síðan stofnaði hann Blackbox með mér og næst á sælkera-masterclass-dagskránni eru djúsar og samlokur.

Þetta verður öskrandi ferskur bastarður sprottinn upp úr nákvæmlega sömu hugmyndafræði og Blackbox en þótt DNA-ið sé það sama verður þarna skýr aðgreining og önnur einkenni sem fólk mun upplifa.“

Djús og olía

Jón Gunnar ætlar ekki að binda Djúsí við Borgartúnið og fram undan er útrás víða um land í samstarfi við olíufélagið N1. „N1 ætlar að opna Djúsí um allt land á sínum helstu stöðvum,“ segir Jón Gunnar.

Jón Viðar Stefánsson, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1, segir fyrirtækið stefna að því að opna Djúsí-staði víða um land á næstu misserum en fyrstu tveir muni opna á landsbyggðinni í sumar. Allt stefnir því í samkeppni olíufélaganna á djúsmarkaði þar sem hugmyndir eru uppi um að opna Lemon-staði á Olísstöðvum.

„Eftir að hafa tekið þátt í þessari þróun frá upphafi með reglulegu smakki erum við komin með frábæra vörulínu sem á það svo sannarlega skilið að fara víða,“ segir Jón Viðar og bætir við að samlokur og djúsar falli vel að þeirri stefnu fyrirtækisins að auka fjölbreytileika hollra og ferskra veitinga á stöðvum N1.

„Við erum sannfærðir um að landinn muni fagna þessari viðbót í veitingaflóruna og getum ekki beðið eftir að leyfa öllum að smakka,“ segir Jón Gunnar. ■