„Þetta er í raun svolítið nýtt fyrir mér. Ég hef eiginlega aldrei gert svona verk áður, sem byggir á svona persónulegri lífsreynslu,“ segir listakonan og ljósmyndarinn Hallgerður Hallgrímsdóttir um verk sitt dauðadjúpar sprungur sem kom til þegar „frumburður okkar kom andvana í heiminn og allt breyttist.“

Myndir sem söfnuðust upp á filmum mánuðina eftir áfallið mynda saman verkið og samnefnda sýningu sem Hallgerður opnar í Ramskram á laugardaginn.

„Það er auðvitað pínu erfitt að vinna svona verk en mér finnst það samt gott. Það hjálpar og ég vona líka að fólk hafi gott af því að koma,“ segir Hallgerður sem segist ekki muna eftir að hafa tekið margar myndanna. Aðrar hafi hún tekið þegar hún vissi ekki hvað hún átti af sér að gera.

Verkið dauðadjúpar sprungur á sér rætur í hjartasorg ljósmyndarans, myndavélin fangar það sem brýst um í undirmeðvitundinni.

„Ég eigraði um hverfið, við hjónin fórum í bíltúra og myndavélin var bara þarna, eitthvað til að gera, fela sig á bak við, tæki sem fylgdi lógík og reglum. Einn daginn tók ég síðan eftir filmuhrauknum í ísskápnum. Eftir það bættust myndir við safnið með meðvitaðri hætti.“

Hallgerður segir að kannski hafi myndavélin verið þarna vegna þess að henni fylgir ákveðinn lógík, jafnvel þegar öll rök þrýtur einhvern veginn og ekkert er eðlilegt lengur. „Þá verður þetta eitthvað svona svolítið næs tæki sem hegðar sér bara eins og það á að gera. Þegar maður er ljósmyndari þá er þetta bara kannski einhvern veginn eðlilegt,“ heldur hún áfram. „Ég skrifaði líka reyndar svolítið mikið og oft á símann, þess vegna bara á einhverri umferðareyju. Einhverjar línur sem mér datt í hug eða þegar ég gat ekki sofið á nóttunni.“

Myndirnar sýna það sem á þeim er og með hvaða augum á það er horft. Ýmist marglaga og táknrænar eða einfaldar og auðlesnar. MYND/HALLGERÐUR

Titill verksins vísar í harmþrugnar línur, lagið Sofðu unga ástin mín sem Halla syngur til hvítvoðungs síns í Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar áður en hún kastar barninu í fossinn á flótta frá yfirvöldunum.