Svo­kallaðir „Satan“ skór sem rapparinn Lil Nas X hannaði í sam­starfi við lista­hópinn MSCHF seldust upp á innan við mínútu eftir að þeir komu á sölu fyrr í dag en um var að ræða 666 pör af breyttum Nike Air Max 97 skóm.

Hvert par seldist á rúm­lega þúsund Banda­ríkja­dali, eða um 130 þúsund ís­lenskar krónur, en um veru­lega um­deilda línu var að ræða. Á skónum mátti til að mynda finna fimm­hyrnda stjörnu úr bronsi, öfugan kross, og vísun Lúkasar­guð­spjall 10:18, sem snýr að komu Satans.

Það sem vakti þó mesta at­hygli var að í sólunum á skónum mátti finna dropa af manns­blóði sem blandað var við blek. Með­limir hópsins MSCHF sáu um að skaffa blóðið en tals­maður hópsins sagði að þau elskuðu að fórna sér fyrir listina.

Þrátt fyrir að um Nike skó hafi verið að ræða hefur fyrir­tækið gefið það út að þau tengist um­ræddri línu ekki neitt. „Nike hvorki hannaði né gaf út þessa skó og við styðjum þá ekki,“ segir í yfir­lýsingu Nike til CNN.

Gefur djöflinum kjöltudans

Línan tengist nýju tón­listar­mynd­bandi rapparans Lil Nas X við lagið Mon­tero (Call Me By Your Name) þar sem rapparinn, sem heitir í raun Mon­tero Lamar Hill, sést dansa við djöfulinn á ögrandi hátt.

Hann lýsti því í kjöl­farið að hann hafi orðið fyrir að­kasti vegna kyn­hneigðar sinnar allt sitt líf og vildi með mynd­bandinu að aðrir upp­lifðu reiðina sem hann ólst upp við.

Eftir að greint var frá línunni birti rapparinn mynd­band á YouTu­be síðu sinni þar sem hann virtist ætla að biðja af­sökunar vegna málsins. Svo reyndist þó ekki þar sem nokkrum sekúndum eftir að mynd­bandið byrjaði tók við tón­listar­mynd­band hans við Mon­tero.