Soul

★★★★

Leikstjórn: Peter Docter, Kemp Powers

Leikarar: Jamie Foxx, Tina Fey, Graham Norton, Angela Bassett

Kvikmyndaframleiðandinn Pixar hefur getið sér nánast f lekklaust orðspor þegar kemur að teiknimyndum. Þrátt fyrir að kanna sífellt nýjar og framandi slóðir eiga myndirnar nánast undantekningarlaust sameiginlegt að vera frábærar. Þegar tilkynnt var um að nýjasta mynd framleiðandans, Soul, yrði einungis sýnd á streymisveitum voru viðbrögðin súrsæt. Þótt það sé vissulega leiðinlegt að fá ekki að njóta hennar á hvíta tjaldinu þá er hún kærkomin viðbót í heimabíóið.

Sálartetur með uppsteyt

Myndin segir frá tónlistarkennaranum Joe Gardner sem virðist að því kominn að gefa feril sinn sem djasspíanisti upp á bátinn. Þegar hann fær óvænt lokatækifæri til þess að sýna hvað í honum býr verður hann óvænt bráðkvaddur og sál hans hefur ferðalagið til handanheima.

Joe gefst þó ekki svo auðveldlega upp og reynir allt hvað hann getur til að snúa aftur í eigin líkama í jarðheimum til að láta drauminn rætast. Honum tekst að koma sér til undanheima þar sem sálir eru að hefja ferðalag sitt til jarðlegrar vistar. Þar rekst Joe á 22, sál sem hefur litla lyst á jarðlegri vist og vill einna helst eyða eilífðinni í undanheimum. Saman tekst Joe og 22 að svindla á kerfinu og snúa þau aftur til jarðar þar sem vandamálin verða einungis fleiri.

Barnvæn tilvistarkreppa

Við tekur litríkt ævintýri þar sem tekist er á við brostna drauma og tilvistarkreppu. Þótt þær séu barnvænar þá veigrar Pixar sér aldrei við að takast á við flókin viðfangsefni í myndum sínum. Það er jú aldrei of snemmt að fara að huga að lífinu og dauðanum, tilgangsleysi og gráa fiðringnum – viðfangsefnum sem skilja meira eftir sig en teiknimyndir um talandi björgunarþyrlur.

Myndin er gullfalleg og stórskemmtileg. Stílbrigði í tónlistinni og teikningum eru á sífelldu reiki sem ýtir undir djassþema myndarinnar. Sögusviðið er lifandi og áhugavert, allt frá ysnum og þysnum á rakarastofu í New York til kynningarnámskeiðs um jarðlega vist í undanheimum. Persónurnar eru litríkar og er samspilið á milli Jamie Foxx sem Joe og Tinu Fey sem 22 vel heppnað. Brandararnir eru misgóðir en best text til í myndinni þegar tekið er á viðkvæmari málum. Þá er einnig lögð mikil natni í smærri hlutverkin. Þar stendur þó þvermóðskufulli bókhaldarinn Terry upp úr sem virðist vera fjarskyldur ættingi Línunnar eftir Osvaldo Cavandoli.

Leikstjórinn Pete Docter hefur verið með puttana í öllum bestu myndum Pixar og skilur fingraför sín eftir á þessari skemmtilegu mynd. Vonandi verður hægt að njóta næstu verka hans í kvikmyndasalnum.