Tónleikaröðin Jazz í Salnum hefur verið að festa rætur í menningarlífi Kópavogs undanfarin ár og á laugardaginn verður þar boðið upp á tónleika á heims­klassa. Þá munu ítalski píanistinn Simone Graziano og belgíski píanistinn Eve Beuvens hittast á því sem er lýst sem eins konar blindu stefnumóti og sýna hvað í þeim býr. Sunna Gunnlaugs hefur haft umsjón með dagskránni frá upphafi og er spennt fyrir herlegheitum helgarinnar.

„Þau eru bæði af yngri kynslóð og hafa sótt efnivið sinn í dægurtónlist,“ segir hún.

„Simone hefur verið að leika sér með efni frá Billie Eilish og Eve með Dolly Parton. Þau semja líka sjálf, svo ég er ekki alveg viss um hvaða dagskrá þau hafa sett saman fyrir okkur.“

Flytjendurnir munu svo hvort um sig flytja sóló-sett áður en þau taka dúett eftir hlé.

„Það sem mörgum finnst svo spennandi við djassinn er hvað það er margt óvænt í honum,“ segir Sunna. „Það er ekki alltaf fyrir fram ákveðið í hvaða átt hlutirnir fara. Svo er líka spennandi að það verði tvö píanó en það er ekki alltaf sem gefst tækifæri fyrir píanista að spila með öðrum píanista. Flyglarnir í salnum eru líka alveg frábærir.“

Væntanlegur virtúós

Þetta er þriðja starfsár tónleikaraðarinnar en Sunna byrjaði með Jazz í Salnum árið 2019 en þurfti að setja hlutina á ís í faraldrinum.

„Það var leiðinlegt því þá fannst mér einmitt eins og við værum að komast í gang fyrir alvöru og vorum búin að koma okkur á kortið,“ segir hún. „Fólk sem kom á tónleika hjá okkur var svo afskaplega ánægt með þetta og að sjá flytjendur á þessu heimsklassa kalíberi. Nú erum við að fara aftur í gang og vonandi kemur engin bremsa á okkur.“

Tónleikarnir um helgina eru þeir einu fyrir áramót en í janúar kemur bandaríski píanistinn Craig Taborn til landsins. Hann er að sögn Sunnu einn eftirsóttasti píanisti New York á undanförnum árum og í New York Times var hann sagður mögulega besti djasspíanisti samtímans.

„Craig er mikill virtúós og alveg sérstakt hvað hann passar inn í hvaða umgjörð sem er,“ segir Sunna. „Hann hentar, sama hvernig tónlist á að spila án þess þó að missa sinn persónulega karakter.“

Tónleikarnir á laugardaginn hefjast klukkan 20 og hvetur Sunna fólk til að kynna sér hvað Salurinn hefur upp á að bjóða.

„Það er mikil upplifun að vera þarna því hljómburðurinn er svo góður,“ segir hún. „Þetta er órafmagnað og alveg frábær akústík.“

Sunna stýrir djassviðburðum í Salnum
mynd/Aðsend