Leikkonurnar og og söngdívurnar Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Margrét Eir, Sigríður Eyrún og Þórunn Lárusdóttir koma saman á tónleikum í Salnum á laugardagskvöld þar sem þær ætla að renna sér í gegnum þekktar perlur úr söngleikjum sem hafa slegið í gegn á Broadway og West End.

„Þetta er einhver útrás bara og okkur langar að gera þetta eftir allan þennan tíma sem við höfum þurft að vera svolítið innilokuð. Það má eiginlega segja að þetta sé svolítið eins og þegar verið er að hleypa kúnum út á vorin,“ segir Þórunn og hlær.

Margrét Eir er á sömu nótum. „Það er náttúrlega bara fyrst og fremst þessi langa bið eftir að fá að syngja. Þannig að við vorum bara: Sjitt, hvað okkur langar að gera eitthvað! Við erum náttúrlega allar svolitlir söngleikjanördar og höfum verið mikið í söngleikjum.“

Allur tilfinningaskalinn

Lögin á efnisskránni eru úr ýmsum áttum og ná samanlagt yfir allan tilfinningaskalann. Sum þeirra hafa þær sungið á sviði í stórum leikhúsum en önnur hafa verið á óskalista þeirra um að fá að syngja einhvern tímann á þeim vettvangi, á meðan enn önnur eru samin fyrir hlutverk sem henta leikkonunum bara alls ekki.

„Við tökum líka lög fyrir hlutverk sem við yrðum aldrei settar í á sviði, sama hversu góðar við erum,“ segir Margrét Eir og hlær. „Þá setur maður það bara í tónleikaform og fáum þannig að prufa lögin sem við fengum aldrei að leika.“

Margrét segir þær því flestar ætla að taka lög sem þær hafi aldrei sungið áður og það sé hægara sagt en gert í sumum tilfellum og sum laganna taki til dæmis mjög á tilfinningarnar. „Þetta er mjög hressandi og við verðum með sólónúmer, dúetta og svo erum við með nokkur lög sem við erum allar í.“

Kýlum á þetta!

„Við erum að syngja lög við hlutverk sem við myndum ekki endilega fá vegna þess að við pössum ekki í þau. Ég syng til dæmis lag sem er fyrir tenór,“ segir Þórunn og hlær. „Það er lag úr söngleiknum The Book of Mormon, sem heitir I Believe. Bara geggjað lag. Það er svo skemmtilegt að gera eitthvað svona sem okkur langar til að gera.“

„Kveikjan að þessu var svolítið að það átti að vera söngleikjauppákoma á einhverri listahátíð annað hvort í fyrra eða hitteðfyrra, sem var að sjálfsögðu hætt við. Þetta rennur allt svolítið saman,“ segir Margrét Eir og hlær.

„Þá áttum við allar að vera bara hver í sínu lagi, en búandi í svona litlu landi þá fórum við náttúrlega strax eitthvað að tala saman og svo bara var þetta fljótt að vinda upp á sig.

Það er sko ekki langt síðan við settum þessa dagsetningu. Nei, nei. Það var bara: Ekkert að bíða. Gerum þetta bara eftir mánuð. Það er laus dagsetning. Kýlum á þetta!“ heldur Margrét áfram og bendir á að akkúrat núna sé opinn smá gluggi fyrir svona óvæntar uppákomur.

Engar reglur

„Það var nú eiginlega bara þannig,“ samsinnir Þórunn. „Það var ekki búið að vera mikið um gigg og okkur var bara farið að kitla í raddböndin að fá aðeins að þenja og við bara ákváðum þetta einhvern veginn. Við hringdumst á og vorum allar til í þetta. Þegar við síðan ætluðum að fara að ákveða prógramm þá settum við bara alls konar lög í púkk sem okkur langar til að syngja. Það voru einhvern veginn engar reglur. Bara Anything goes, eins og segir í þeim söngleik,“ segir Þórunn og hlær.

„Við erum mjög spenntar og hlökkum mikið til allar og finnst gaman að vinna saman. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt prógramm.“

Tónleikarnir eru í Salnum í Kópavogi og hefjast klukkan 20 á laugardagskvöld.