Kvikmyndafyrirtækið Walt Disney hefur ákveðið að fresta því að setja þrjár stórmyndir í sýningu, vegna kórónaveirufaraldursins. Þetta er mikill skellur fyrir kvikmyndabransann sem berst í bökkum sökum áhrifa sem faraldurinn hefur haft.

Um er að ræða nýjustu myndirnar í röðinni í kvikmyndaröðununum Star Wars, Avatar og Mulan. Avatar hefur verið sett á dagskrá í desember árið 2022 og áætlað er núna að næsta Star Wars-mynd fari í sýningu fyrir jólin árið 2023.

Mulan-myndin hefur verið sett á ís ótímabundið, en til stóð að sýna hana í kvikmyndahúsum í ágúst næstkomandi. Sú staðreynd að smitum fjölgar enn í Bandaríkjunum, varð til þess að ekki þótti skynsamlegt að setja nýja mynd í bíó.

„Það er mikil óvissa með framhaldið í kvikmyndaheiminum en við erum að freista þess að setja fram einhverja áætlun fyrir næstu misseri í bransanum," segir talsmaður Disney um stöðu mála.