Diskógoð­sögnin og þre­faldi Gram­my-verð­launa­hafinn Harry Wa­yne Cas­ey úr KC and The Suns­hine Band, einni vin­sælustu hljóm­sveit 8. ára­tugarins, kom fram á lista­manna­spjalli í Tón­listar­skóla FÍH í dag. Harry eða KC, eins og hann er kallaður, ræddi við nemendur á Zoom á svo­kölluðu Forum hádegispjalli þar sem nem­endur FÍH fá tæki­færi til að hitta at­vinnu­menn úr tón­listar­lífinu og spyrja þá út í listina og lífið.

Harry Cas­ey stofnaði KC and The Suns­hine Band árið 1973 og reis frægðar­sól hljóm­sveitarinnar einna hæst á 8. og 9. ára­tug síðustu aldar með lögum eins og That's the Way (I Like It), Get Down Tonight og Shake Your Booty.

KC, sem er sjö­tugur, er síður en svo hættur að gera tón­list og vinnur nú að nýrri plötu. Að­spurður um hvernig hann héldi ­ást­ríðunni lifandi sagði hann:

„Ef þú elskar eitt­hvað þá geturðu ekki misst þá ást­ríðu. Lífið hendir fullt af hindrunum í veg okkar allra en ef þú virki­lega elskar eitt­hvað, tón­list eða list eða hvað sem er, þá verða þessar hindranir bara hindranir en ekki eitt­hvað sem mun stoppa þig í því að gera það sem þú elskar og nýtur.“

KC hringdi í nemendur frá Flórída, þar sem hann er búsettur.
Fréttablaðið/Ernir

Leið eins og dýri í búri

KC ræddi einnig frægðina en hann hefur selt meira en 100 milljónir platna á ferli sínum og unnið til þriggja Gram­my verð­launa. Hann sagði frægðina þó alls ekki hafa verið dans á rósum allan tímann.

„Það tók mig 40 ár að skilja hana. Á tímum var hún svo yfir­þyrmandi að há­punktur ferils míns var ein­mana­legasti tími lífs míns. Ég fékk alla þessa að­dáun en þetta var ein­mana­legur tími fyrir mig af því ég fékk ekki að njóta hennar. Ég var inni­lokaður að horfa út. Það voru kannski 5-10 þúsund manns fyrir utan hótelið mitt og ég þurfti að laumast inn um bak­dyrnar. Ég var svo ein­angraður að mér leið eins og dýri í búri,“ sagði hann.

KC sagði tón­listina alltaf hafa spilað mjög stórt hlut­verk í lífi sínu og lýsti því sem ein­stakri til­finningu að standa á sviði.

„Þessi til­finning sem þú færð við lok tón­leikanna, hún er engu lík. Maður getur ekki einu sinni lýst þessari til­finningu, spennunni sem maður fær. Og ég vona að hvert og eitt einasta ykkar finni þetta í hvert skipti sem þið komið fram og leyfið ykkur að upp­lifa þetta augna­blik,“ sagði KC og bætti við að lokum að hann óskaði öllum nem­endum FÍH alls hins besta í lífinu og tón­listinni.

„Trúið á ykkur sjálf, trúið á ást­ríðuna ykkar og njótið þess bara. Leyfið henni að taka ykkur á staði sem þið hafið aldrei komið á áður.“

Frá­bært tæki­færi fyrir nem­endur

Gunnur Arn­dís Hall­dórs­dóttir, for­maður nem­enda­fé­lags FÍH, sagði við­burðinn hafa verið ein­stak­lega vel heppnaðan.

„Mér fannst rosa­lega skemmti­legt hvað hann var venju­legur. Þetta var bara eins og að spjalla við hvern annan mann, þrátt fyrir að vera svona rosa success­ful og kominn svona langt á sínum ferli þá er hann bara svo jarð­bundinn og skemmti­legur,“ segir Gunnur.

Er mikil­vægt fyrir tón­listar­nema sem eru að feta sín fyrstu skref að fá að spjalla við at­vinnu­menn eins og KC?

„Já, þetta er náttúr­lega frá­bært tæki­færi fyrir alla nem­endur að spyrja út í bransann og allt sem þessu fylgir. Við erum að fá upp­lýsingar frá starfandi tón­listar­fólki um hvernig það er að fara í gegnum upp­töku­ferlið, hvernig er í live per­for­mans og allt þetta.“

Skipu­leggjandi Forum lista­manna­spjallanna í FÍH er saxó­fón­leikarinn Dr. Phil Doy­le sem kennir við skólann. Phil kynntist KC þegar hann spilaði í KC and the Suns­hine Band um nokkurra ára skeið og túraði með hljóm­sveitinni víðs­vegar um heiminn. Að sögn Phil tók Róbert Þórhallsson, skólastjóri FÍH, mjög vel í hugmyndina og studdi við hana allt frá upphafi.