Hafdís Jónsdóttir sem gjarnan kölluð Dísa í World Class hefur fjárfest í 150 milljón króna penthouse- íbúð í Skuggahverfinu. Þetta kemur fram hjá Smartlandi á mbl.is
Þar kemur fram að Dísa hafi fest kaup á íbúðinni 2. október 2020 rétt áður en líkamsræktarstöðvum var lokað vegna kórónuveirunnar en Dísa og eiginmaður hennar Björn Leifsson eiga og reka líkamsræktarstöðvar World Class.
Samkvæmt Smartlandinu var íbúðin áður í eigu Urriðafoss ehf. sem er í eigu Sverris Þórs Gunnarssonar.
Björn hefur verið ötull talsmaður þess að líkamsræktarstöðvar verði opnaðar aftur og ítrekað talað um þann fjárhagslega skaða sem stöðvar hans hafa orðið fyrir í lokununum.
Hann sendi Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra bréf þann 3. desember síðastliðinn varðandi lokun heilsuræktarstöðva. Afrit af bréfinu var sömuleiðis stílað á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra.
World Class sagði upp 90 starfsmönnum um mánaðamótin. Í samtali við Rúv eftir uppsagnirnar sagði Björn að World Class hafi orðið af 1,3 milljörðum í tekjum það sem af er þessu ári. Ekki sé hægt að halda þannig áfram og uppsagnirnar hafi því miður verið það eina í stöðunni. Um 200 manns starfa hjá fyrirtækinu eftir uppsagnirnar.