Dineout Iceland appið gerir fólki kleift að sjá hvar sé laust borð á flestum veitingastöðum landsins auk þess að ganga frá bókun í rauntíma með einföldum hætti dineout.‌is. Til viðbótar er hægt að panta mat til að sækja eða fá heimsendan og hefur það verið mjög vinsælt á tímum COVID. Líðandi tími kallaði á aðgerðir af hálfu Dineout til að þróa þá lausn og sjá viðskiptavinir hvaða staðir bjóða upp á að taka matinn heim og geta gengið frá pöntun með auðveldum hætti.

Undanfarið ár vann starfsfólk mikið að heiman en einnig var Dineout með skrifstofuaðstöðu sem nýttist því. Í enda janúar tók Inga Tinna ákvörðun um að sameina allt undir einu þaki og leigði hæð í Skútuvogi 13a. Ég var fenginn í að hanna umgjörð sem hentaði öllum starfsmönnum fyrirtækisins, bæði forriturum góða vinnuaðstöðu og einnig aðstöðu þar sem allir geta sest niður saman, farið yfir verkefni sín og framtíðarplön.

Það magnaða við þetta verkefni er að við náðum að klára framkvæmdir og flytja alla í nýju höfuðstöðvar Dineout á sjö dögum. Það var allt tekið í gegn, ég setti nýtt gólfefni en tvær tegundir voru fyrir, dúkur á öðru rýminu og hálfónýtt parket á hinu. Við sprautuðum loftið matt svart og settum innfelld svört ljós, öll skrifstofan var máluð í París gráu með 1% gljástigi sem gerir allt ótrúlega hlýlegt og tekur vel utan um mann.

Hugguleg aðstaða fyrir starfsmenn eða gesti sem eiga erindi á staðinn.

Pælingin var að fremra rýmið myndi nýtast fyrir fundi og kynningar á þeim fjölmörgu verkefnum sem fyrirtækið vinnur að, en einnig sem slökunarrými fyrir starfsmenn og forritararnir fengu Playstation og stórt sjónvarp á vegginn. Svo stendur til að fá fleiri „leiktæki“ til að brjóta upp daginn. Þar er einnig hægt að bjóða upp á gott Nespresso-kaffi og spjall fyrir gesti.

Ingu Tinnu er margt til lista lagt, hún er listáhugakona og fagurkeri, veggirnir fá að njóta sín með fallegri list til að skapa þessa upplifun sem við sóttumst eftir.

Seinna rýmið var síðan sett upp sem vinnurými með nokkrum starfsstöðvum, bæði fyrir fasta starfsfólkið og þá sem síðan geta komið inn í verkefni í styttri tíma.

Inga Tinna rekur einnig fyrirtækið Icelandic Coupons sem er starfrækt í höfuðstöðvunum í Skútuvogi. Það er vinsælasta afsláttarapp Íslendinga og hafa rúmlega 40.000 landsmenn sótt sér aðgang að því appi. Það er mikið líf í þessu framsækna fyrirtæki. Það var ótrúlega gaman að koma að þessu verkefni í hönnun með Ingu Tinnu og svo sannast það enn og aftur hvað góður verktaki getur gert með góðri samvinnu. Verktakafyrirtækið Bestverk sá um allar framkvæmdir við þetta nýja húsnæði og gerði það listavel á aðeins sjö dögum.

Sir Arnar Gauti

Notalegt vinnuumhverfi fyrir starfsmenn og mikið hugsað um hlýleika. Takið eftir litnum á veggnum.
Þannig leit salurinn í Skútuvogi út áður en hann var tekinn í gegn.