Diljá Pétursdóttir, fulltrúi Íslands í Eurovision í ár, hefur fallið um sæti í Eurovision veðbönkum. 

Samkvæmt heimasíðu Eurovisionworld, sem reiknar saman spár allra helstu veðbanka fyrir Eurovision söngvakeppnina, er Diljá í 25. sæti með lagið Power.

Ís­land hafði flakkað milli 32. sætis og þess 28. í að­draganda úr­slita­kvölds Söngva­keppninnar þann 4. mars síðastliðinn, en eftir að ljóst varð að Diljá yrði full­trúi Ís­lands breyttist staðan og Ís­land mjakaði sér sí­fellt ofar á listanum. Undanfarna viku hafði Diljá setið í 24. sæti listans en hefur nú fallið niður í það 25.

Diljá vermir nú 25. sæti samkvæmt heimasíðu Eurovisionworld. En þegar tæpir tveir mánuðir eru í keppnina getur allt gerst.
Mynd/Skjáskot

Svíar þykja sigur­strang­­legir í keppninni í ár, en þeir tróna á toppi listans og bera höfuð yfir herðar allra annarra kepp­enda. Sví­þjóð skaust beint á toppinn þegar til­kynnt var að Euro­vision goð­sögnin Lor­een, sigur­vegari Euro­vision árið 2012, væri meðal kepp­enda í for­keppni Sví­þjóðar.

Lor­een sigraði Melodi­festiva­len, sænsku út­gáfuna af Söngva­keppninni, með nokkrum yfirburðum í gærkvöldi og því ljóst að hún fer beinustu leið til Liver­pool og upp á stóra sviðið sem full­trúi Sví­þjóðar með lagið sitt Tatt­oo. Sam­kvæmt veð­bönkum eru 38 prósent líkur á því að sigurinn verði sænskur í ár og því kannski ekki úr vegi fyrir Júró­nörda að fara að rífa upp kredit­kortin og huga að því að panta hótel í Stokk­hólmi í maí á næsta ári?