Sumartónleikar Hallgrímskirkju í Saurbæ, Hvalfirði, hefjast á sunnudaginn 20. júní. Alls verða níu tónleikar í sumar hvern sunnudag kl. 16 frá 20. júní til 15. ágúst. Allur ágóði rennur til styrktar staðnum.

Tónleikaröðin hefst sunnudaginn 20. júní kl. 16.00 þegar Diddú og drengirnir, ásamt kór Saurbæjarprestakalls, flytja sönglög úr ýmsum áttum. Drengirnir eru Sigurður Ingvi Snorrason og Kjartan Óskarsson á klarínettur, Frank Hammarin og Þorkell Jóelsson á horn og Brjánn Ingason og Snorri Heimisson á fagott.