Felicity Huffman hefur nú setið inni í tvo daga af þeim fjórtán sem hún var dæmd til að afplána eftir að upp komst um svindl er varðaði inngöngu barna hennar inn í virtan bandarískan háskóla.

Hún var á dögunum dæmd til fjórtán daga fangelsisvistar auk 250 klukkustunda samfélagsþjónustu. Einnig þurfti hún að greiða 30 þúsund dollara sekt, rúmlega 3,7 milljónir króna.

Huffman, sem er 56 ára gömul, afplánar dóminn í Kaliforníu, um 160 kílómetrum frá heimili sínu í Los Angeles.

Greint er frá því í slúðurmiðlum vestanhafs að Huffman, og aðrir fangar í fangelsinu, þurfi að vakna klukkan fimm á morgnana. Morgunmatur hefst hálf sex, hádegisverður 10.45 og kvöldverður er borinn fram eftir fjögur á daginn.

Fangar geta hlustað á tónlist eða sinnt tómstundum; hægt er að spila körfubolta, blak og tennis, svo nokkuð sé nefnt. Hún deilir klefa með samföngum og hefur aðgang að sameiginlegu klósetti.

Eiginmaður hennar, leikarinn William H. Macy, og dætur þeirra, Sophia og Georgia, sem eru 19 og 17 ára, mega heimsækja hana um helgar.