Demi Moore er glæsileg á októberforsíðu Harper’s Bazaar og ber aldurinn vel. Það eina sem hún klæðist er barðastór bleikur hattur. Að auki er hún með demantsarmband. Á Instagram-reikningi sínum segir Demi sjálf svo frá: „Sýni allt í októberútgáfu Harper’s Bazaar.

Í viðtalinu ræðir hún um nýja sjálfsævisögu, Inside Out, sem er væntanleg í bókabúðir 24. september en í henni segir hún sögu sína sem eflaust á eftir að koma einhverjum á óvart. Mörg sár augnablik eru rifjuð upp í bókinni. Meðal annars rifjar hún upp fósturmissi þegar hún var komin sex mánuði á leið. Þá var hún gift leikaranum Ashton Kutcher. Barnið var stúlka og þau höfðu þegar ákveðið nafn á hana.

Októberblað Harper’s Bazaar.

Demi var 42 ára þegar hún játaðist Ashton Kutcher árið 2005. Hann var þá 27 ára og hjónabandið vakti mikla athygli enda talsverður aldursmunur. Þau skildu árið 2013. Demi viðurkennir í viðtalinu að hún hafi átt slæm tímabil í lífinu þar sem hún misnotaði áfengi. Hún segist oft hafa mætt mótlæti í lífinu en lítur samt ekki á sig sem eitthvert fórnarlamb. „Allt sem gerist í lífinu mótar okkur sem manneskjur,“ segir hún í viðtali við blaðið.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Demi fækkar fötum í myndatöku. Fræg mynd var tekin af henni nakinni fyrir Vanity Fair árið 1991. Þá var hún kasólétt og myndin vakti svo mikla athygli að hún er enn notuð sem dæmi um frábæra myndatöku. Það var ljósmyndarinn Annie Leibovitz sem tók þá mynd en hún hefur náð heimsfrægð fyrir þá mynd og fleiri.