Banda­ríska söng­konan Demi Lovato hefur slitið trú­lofuninni við leikarann Max Ehrich, að­eins tveimur mánuðum eftir að hann bað um hönd hennar.

Að­dá­endum söng­konunnar fór að gruna að ekki væri allt með felldu þegar Lovato og hennar nánustu vinir hættu að fylgja leikaranum á sam­fé­lags­miðlum. Þá sögðu heimildar­menn E News að vinir Lovato hafi lýst efa­semdum sínum yfir sápu­óperu­leikaranum frá byrjun.

Hundsaði við­vörunar­merkin

„Það voru mörg við­vörunar­merki sem hún var að hundsa og reyna að horfa fram­hjá,“ er haft eftir heimildar­manni E News. „Hún treystir honum ekki og finnst hann vera grun­sam­legur.“

Sam­kvæmt heimildar­manninum hefur sam­bandið verið á niður­leið frá því á­kveðið var að Ehrich myndi fara til At­lanta í tökur. „Þau rifust mikið og Demi vildi ekki að hann myndi fara án hennar.“

Vanda­málin hafi þó ekki að­eins legið í rifrildum að sögn heimildar­mannsins heldur einnig vegna þess hver stutt parið hafði verið saman. „Hún þekkti Max ekki í raun og veru og vissi ekki hvort á­setningur hans væri góður.“

Parið hafði verið trúlofað í tvo mánuði.
Mynd/Instagram