Hlaðvarpsþættir eru sívaxandi afþreyingarform og framboðið virðist endalaust. Hægt er að hlusta á streymisveitum á borð við Spotify og iTunes og ljóst að allir geta fundið efni sem hentar þeirra áhugasviði, sama hversu sértækt það kann að vera. Við lítum á skemmtileg dæmi.

Last Podcast on the left

Ein af eftirlætis hlaðvarpsframleiðslum Hólmfríðar er Last podcast on the left. „Það eru þrír bandarískir gæjar sem heita Ben, Marcus og Henry. Marcus Parks var einmitt að kaupa hlut í Grapevine um daginn sem er mjög skemmtilegt,“ segir Hólmfríður.

Að sögn Hólmfríðar er hlaðvarpið að kanna dekkri hliðar sögunnar í bland við sönn sakamál. „Það sem mér finnst skemmtilegast er svona dark history, sögur sem eru stranger than fiction,“ segir Hólmfríður. „Þetta gerðist í alvöru, djöfull er þetta galið!“ Hólmfríður málaði skápa heima hjá sér í síðustu viku og hlustaði á meðan. „Ég var að hlusta á þætti sem ég var búin að hlusta á áður, svona mini-seríur inni í þeirra seríum,“ segir hún. „Það voru fimm þættir um MK-Ultra prógrammið sem var bara raunveruleg tilraun bandarísku leyniþjónustunnar til að búa til einhverja ofurhermenn og fá fólk til að lesa hugsanir, svona raunverulegt kaldastríðs-clusterfuck, ógeðslega áhugavert,“ segir hún.

Hólmfríður segir að tilraunin hafi leitt af sér jaðarkúltúr í Bandaríkjunum og að LSD-ofskynjunarlyfið hafi komist í umferð í kjölfarið. Þá segir Hólmfríður að sögusvið Stranger Things þáttanna sé innblásið af tilrauninni.

Hún útskýrir að þáttarstjórnendur séu fimm saman og þeir kasti mikið á milli. „Einn þeirra sér um rannsóknarvinnuna og les upp umfjöllunarefni þáttarins. Annar sem er svona grínari og svo er þriðji sem er þáttarstjórnandi og stillir til friðar þegar umræðan er orðin of heit,“ segir hún.

Að sögn Hólmfríðar eru þáttarstjórnendur á svipuðum aldri og hún sjálf og því tengi hún vel við poppmenningarvísanir og tengingum við samtímann. Þó séu þeir ekki uppteknir af pólitískri rétthugsun og nálgunin sé mjög ólík þeirri nálgun sem aðdáendur kvennaþátta um sönn sakamál eigi að venjast. „Það er mjög vönduð rannsóknarvinna í gangi. Ég get mælt með þáttum eins og þeim þegar þeir tóku fyrir svarta dauða. Þeir gerðu það fyrir ári síðan og það eru fjórir þættir. Þeir eru nýbúnir að taka fyrir galdraofsóknirnar í Salem,“ segir Hólmfríður og bætir því við að hún fari aldrei á fætur á laugardagsmorgnum án þess að hlusta fyrst á nýjasta þáttinn af Last Podcast on the left.

„Þeir leggja líka rosalega mikla áherslu á það, þegar þeir taka fyrir þekkt mál í True Crime, raðmorðingja eða eitthvað svoleiðis, að þeir hafna algjörlega því að setja fjöldamorðingja í einhvern hetjuljóma eins og er oft gert þegar verið er að framleiða sjónvarpsþætti. Þeir eru svolítið í því að rífa þessa menn niður af einhverjum stalli, og ég fíla það. Það á ekkert að vera að upphefja þetta lið. Það er oft mjög áhugavert hvernig þeir nálgast það,“ segir hún.

Hólmfríður segir elstu þættina mun síðri en hina nýrri. „Þeir verða alltaf betri og betri og slípast til,. Fyrstu þættirnir þeirra eru alls ekki eins góðir. En þeir eru búnir að vera í þessu svo ótrúlega lengi og eru mjög sjóaðir, og gaman að hlusta á þá.“

The Rewatcher

Hólmfríður segir að þekkt hlaðvarpsform sé tvær konur að fjalla um sönn sakamál. „Þar eru fremstar í flokki Karen og Georgia í My Favorite Murder, og svo Ash og Alaina í Morbid. Það eru hvoru tveggja mjög skemmtileg podcöst,“ segir hún og bætir við að báðar framleiðslurnar sendi út nýjan þátt í hverri viku.

„Mig langaði að benda á að Ash og Alaina eru með nýtt hlaðvarp sem þær byrjuðu á núna í haust sem heitir The Rewatcher,“ segir Hólmfríður. „Þær eru að horfa á Buffy the vampire slayer. Elaina er á svipuðum aldri og ég, fædd 1985 eða 1986. Ash er 10 árum yngri og er að horfa á þetta í fyrsta skipti,“ segir hún. „Þær horfa á þetta þátt fyrir þátt, einn í viku og eru svo að tala um þáttinn. Þetta er brjálæðislega skemmtilegt,“ segir Hólmfríður.

„Þær eru sjúklega fyndnar, eru frænkur en alast upp saman og eru mjög nánar. Það er gaman að hlusta á þær tala saman. Þær gagnrýna þættina og horfa á þetta með nútíma augum og tala um hvað eldist vel og tala um tískuna og tala beint inn í nineties pre-teen hjartað mitt og mér finnst það mjög notalegt. Mig langar að mæla með the Rewatcher fyrir öll nineties börnin sem eru núna að detta í fertugt. Þetta er mjög skemmtilegt podcast.

LORE

Hólmfríður segist hafa einstaklega gaman af myrkum sagnfræðihlaðvarpsþáttum. „Kannski svolítið eins og Leðurblakan sem Vera Illugadóttir gerði. Það er geggjað podcast, ótrúlega skemmtilegt,“ segir hún.

„Í þeim geira er Aaron Mahnke geitin. Hann er með stórt framleiðslufyrirtæki sem heitir Grim and Mild sem framleiðir allskonar podköst,“ segir hún. „Þar er mitt uppáhalds, Lore, þar sem hann fer í gegnum allskonar svona þjóðsögur og sögur og tengir við raunveruleg mál og allskonar gleymd mál líka, og akkúrat þetta, gerðist þetta i alvörunni, vá hvað þetta er galið.“

Hólmfríður segist sérstaklega hrifin af því þegar staðreyndirnar eru furðulegri en skáldskapur. „Af því að lífið og heimurinn er svo skrýtinn. Það eru ótrúlegustu hlutir sem fólki dettur í hug. Ótrúlega merkilegt hvernig viðhorf hafa breyst.“

Hún nefnir annað hlaðvarp í sama dúr sem heitir The Conspirators. „Það er á svipaðri línu og er mjög skemmtilegt. Ég fæ aldrei leið á þessu.“

Ologies

„Það er mjög sértækt. Kona sem heitir Allie Ward er með það og hún fær til sín allskonar sérfræðinga, um allt. Það eru til sérfræðingar í öllu. Ég hlustaði á þátt um daginn þar sem kom til hennar kona sem er mosasérfræðingur. Svo var steinasérfræðingur og ánamaðkasérfæðingur. Það er ótrúlega skemmtilegt að fræðast um mismunandi sérgreinar. Það er hægt að sérhæfa sig í ótrúlegustu hlutum.“

Wizard and the Bruiser

„Svo er ég svo mikill nördi og hef alltaf verið. Þegar síðustu tvær seríurnar af Game of Thrones voru í gangi var ég að ná svona sjö klukkutímum af aukaefni á milli þátta, var bara að hlusta á fólk greina þættina til þess að sefa hungrið á milli þátta. Maður er orðinn svo óvanur því að horfa á línulega dagskrá.

The Last podcast on the left strákarnir framleiða The Wizard and the Bruiser. Þeir eru að fjalla um allskonar sem tilheyrir svona nördakúltúr sem mer finnst brjálæðislega skemmtilegt. Þeir hafa tekið fyrir Princess Mononoke, Independence Day, Twin Peaks, mikið af tölvuleikjum, Mario Cart, Rick and Morty og Adventure Time. Það kitlar allar nördataugarnar inni í mér af því að stundum hef ég rosalega mikla þörf til að tala um eitthvað sem mér þykir skemmtilegt en enginn í kringum mig hefur áhuga á.“

The X-Wife

„Mér þykir rosalega vænt um það af því að ég uppgötvaði það þegar ég fékk covid og það fleytti mér í gegnum covid. Ég var pínu súr að þurfa að hætta í miðjum katalógnum til að fara aftur í vinnuna, en síðan er ég búin að ná þeim aftur núna.“

Hjónin Justin og Alicia framleiða þættina og lesa saman í gegnum X-men teiknimyndasögurnar. „Ég hef tekið svona tímabil þar sem ég hef sökkt mér á kaf í X-men. Það er svona minn uppáhalds hluti af Marvel heiminum. X-men hefur margt fram yfir aðrar Marvel sögur, og eru mjög framarlega. Mikil hinsegin menning og svona vítt karaktergallerí. Fólk af öllum þjóðernum, fólk sem er jaðarsett. Mér finnst skemmtilegt að skoða þessar sögur og hvernig þeim er komið á framfæri.“