Sonja Björg Írisar Jóhannsdóttir kom kærustunni sinni, Kolbrúnu Helgu Pálsdóttur, rækilega á óvart nú á dögunum þegar hún bað hana um að giftast sér.

Það var á gráu föstudagskvöldi og Sonja og Kolbrún voru staddar í svítunni á Hótel Borg að fylgjast með Írafár tónleikunum á RÚV. Birgitta Haukdal var að syngja lagið Aldrei mun ég, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá parinu, þegar Sonja fór niður á hnéð og bað Kolbrúnu um að giftast sér.

Sonja Björg og Kolbrún Helga.
Mynd/Aðsend

Birgitta Haukdal deildi bónorðinu á Instagram

Sonja Björg tók allt upp á myndband og deildi því á Instagram story og hefur enginn önnur en Birgitta Haukdal, söngkona Írafárs, deilt því á Instagram. Myndbandið hefur vakið mikla lukku og hefur hamingjuóskum gjörsamlega rignt yfir parið síðastliðinn sólarhring. Hægt er að horfa á myndbandið neðst í fréttinni.

„Það var náttúrulega geggjað að sjá að Birgitta var að deila þessu á story hjá sér þar sem við erum miklir aðdáendur hennar,“ segir Kolbrún í samtali við Fréttablaðið.

Birgitta Haukdal, söngkona Írafár, deildi svo myndbandinu af bónorðinu á Instagram story hjá sér.
Mynd/Skjáskot

Var boðið að gista á svítunni á Hótel Borg

Sonja er að útskrifast með master í verkefnastjórnun en hún er einnig sálfræðimenntuð og vinnur á leikskóla. Kolbrún er uppeldisfræðimenntuð og starfar einnig á leikskóla sem deildarstjóri.

„Það er eitthvað rómantískt við hversdagsleikann, þennan gráa föstudag, því hver dagur með Kolbrúnu er svo fullkominn.“

Í tilefni þess að Sonja var að verja meistaraverkefni sitt höfðu þær bókað gistingu á hóteli sem reyndist vera lokað. Til allrar lukku var þeim boðið að gista í svítunni á Hótel Borg í staðinn. „Það var því alveg óvænt að við fórum í svítuna á Hótel Borg.“

Kolbrún segist ekki hafa búist við bónorðinu.

„Þegar við kynntumst þá vorum við báðar miklir aðdáendur Írafárs. Það var svo fullkomið að tónleikarnir voru á RÚV. Þetta var bara venjulegur föstudagur í raun, við vorum bara að hlusta á uppáhalds hljómsveitina okkar,“ segir Kolbrún.

„Það er eitthvað rómantískt við hversdagsleikann, þennan gráa föstudag, því hver dagur með Kolbrúnu er svo fullkominn.“
Mynd/Aðsend
Sonja segist vera mjög hvatvís að eðlisfari og hún hafi í raun ákveðið daginn áður að hún ætlaði að biðja Kolbrúnu um giftast sér.
Mynd/Aðsend

„Sonja stakk upp á því að við myndum dansa við tónleikana og taka upp dansinn. Myndbandið var búið að vera í gangi í ákveðinn tíma því Sonja vildi ná fullkomna augnablikinu þegar hún fór svo niður á hné. Það er ótrúlega gaman að geta átt þetta augnablik á myndbandi.“

Ákvað að biðja hennar daginn áður

Sonja segist vera mjög hvatvís að eðlisfari og hún hafi í raun ákveðið daginn áður að hún ætlaði að biðja hana um giftast sér.

„Ég sá svo fallega hringa hjá Sif Jakobs, sem hægt er að láta grafa í. Við búum núna hjá tengdaforeldrum mínum því við erum að bíða eftir íbúðinni okkar sem við fáum afhenta bráðlega. Mig langaði að eiga fallegt deit kvöld og þá datt mér í hug að við gætum átt fallega stund saman að horfa á tónleikana hjá Írafár. Það var í raun á fimmtudeginum sem ég ákvað að biðja hennar. Þá hringdi ég og athugaði hvort það væri hægt að fá hringana sama dag eða daginn eftir og það var ekkert mál.“

Hún segir það hafa verið mjög erfitt að halda þessu leyndu fyrir Kolbrúnu þó það hafi bara verið í einn dag. Á föstudeginum fannst henni vel við hæfi að dagurinn hafi verið ósköp venjulegur og grár.

„Það er eitthvað rómantískt við hversdagsleikann, þennan gráa föstudag, því hver dagur með Kolbrúnu er svo fullkominn.“

Parið segist vera á bleiku skýi þessa dagana.
Mynd/Aðsend

„Já, já auðvitað!“

„Alltaf þegar ég kaupi handa henni gjafir þá segi ég henni strax. Ég get aldrei haldið neinu leyndu fyrir henni svo þetta var alveg sérstaklega erfitt. Ég er vanalega frekar örugg með sjálfa mig svo ég bjóst ekki við að verða svona stressuð,“ segir Sonja.

„Um kvöldið var ég að bíða eftir rétta augnablikinu og rétta laginu. Svo þegar ég bað hennar þá leið svona sekúnda þar sem hún setti upp svip, svona „Ómægod, Sonja hvað er að þér“-svip og þá varð ég skíthrædd og hélt að hún væri ekki tilbúin í þetta skref. En þá brosti hún og sagði já, já auðvitað!“ segir Sonja og hlær.

Parið segist vera á bleiku skýi þessa dagana og sé stærsti draumurinn að fá Írafár til að spila í brúðkaupinu.