Ættarnöfn hafa verið þrætuepli í íslensku samfélagi nær sleitulaust frá miðri nítjándu öld. Páll Björnsson, sagnfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, gerir grein fyrir þeim deilum í nýrri bók sinni, Ættarnöfn á Íslandi: Átök um þjóðararf og ímyndir.

„Ég byrjaði á rannsókninni fyrir nokkrum árum þegar ég rakst á efni í gömlum blöðum og tímaritum þar sem menn voru að deila um ættarnöfn,“ segir Páll. „Maður sá strax að þetta var það mikið efni að ég ákvað að gera úr þessu stórt verkefni.“

Í bókinni byrjar Páll á nítjándu öld þegar greinar voru fyrst farnar að birtast um efnið í landsmálablöðunum.

„Þá var ættarnöfnunum byrjað að fjölga hér á landi, en þau voru kannski hundrað í upphafi nítjándu aldar en um þrjúhundruð undir aldarlok,“ segir hann. „Þetta er hæg fjölgun sem á sér stað samhliða fjölgun ættarnafna í Evrópu, einkum í Danmörku þar sem var auðvitað mikið af íslenskum námsmönnum sem kynntust þessum nafnasið.“

Margt hafði áhrif á þessar deilur, til dæmis vesturferðir Íslendinga.

„Þeir sem fluttu til Vesturheims tóku upp ættarnöfn og fóru síðan að hvetja það fólk sem bjó áfram á Íslandi til að gera slíkt hið sama,“ segir Páll. „Þeir og aðrir formælendur ættarnafnasiðarins fullyrtu að Íslendingar þyrftu að taka upp ættarnöfn til að halda reisn sinni gagnvart öðrum þjóðum. Andstæðingar ættarnafna lögðu á hinn bóginn megináhersluna á að föðurnafnasiðurinn væri slíkur menningarlegur fjársjóður að hann mætti ekki fyrir nokkurn mun hverfa.“

Tólf ára gluggi

Deilurnar um ættarnöfnin náðu vissu hámarki á fyrri hluta tuttugustu aldar.

„Á Íslandi eru samþykkt lög sem heimila ættarnöfn árið 1913, en tólf árum síðar ákvað þingið að banna ættarnöfn,“ segir Páll. „Það eru tólf ár þar sem ættarnöfn eru leyfð gegn því að fólk keypti sér leyfisbréf upp á tíu krónur og annað slíkt. Á þessu tímabili verða umræðurnar í blöðunum og á Alþingi mjög heitar og harðar.“

Þá kemur skírnarnafnasiður einnig við sögu í bókinni. „Ein helsta niðurstaðan af þessari deilu um ættarnöfnin er ákvörðunin um að gera skírnarnafnið ráðandi á Íslandi,“ segir Páll.

Umræðan hefur haldið áfram síðan af mismiklum krafti og á árunum 1955 og 1971 voru lögð fram stjórnarfrumvörp, þar sem til stóð að leyfa ættarnöfn á nýjan leik, en fengu ekki stuðning á þinginu. „Á síðustu tíu til tuttugu árum hefur svo verið að færast kraftur í umræðuna á ný eins og sést á frumvörpum á þinginu,“ segir Páll. „Nöfn eru mikilvæg fyrir Íslendinga eins og aðra, enda eru þau hluti af sjálfsmynd fólks.“