Nú stendur yfir listsýning í listagalleríinu Kling og Bang, en að henni standa þau Melanie Ubaldo, Dýrfinna Benita og Darren Mark. Þau eiga öll það sameiginlegt að eiga filippseyskar rætur, en í sýningunni skoða þau menningu landins og deila með gestum.

Buðu upp á filippseyskan mat

„Titillinn á sýningunni er Lucky me? en það er tilvísun í vinsælar pakkanúðlur á Filippseyjum. Við erum öll þaðan. Við erum íslensk en með filippseyskan uppruna. Við Darren fluttum hingað mjög ung en Dýrfinna fæddist á Íslandi,“ segir Melanie.

Hún segir sýninguna hafa frekar jákvæðan undirtón, að þau séu að nýta tækifærið til að deila sinni menningu og arfleifð með okkur Íslendingum.

„Þetta er nostalgísk túlkun á filippseyskri menningu frá okkar sjónarhorni. Okkar upplifun er öðruvísi en foreldra okkar, en sýningin er þó tileinkuð þeim en líka öðrum filippseyskum innflytjendum hér á landi. Þetta eru alls konar verk, myndbandsverk, gjörningar og innsetningar. Á laugardaginn, á opnuninni, spiluðu til dæmis bræður mínir og vinir hans körfubolta, en hann er mög vinsæll á Filippseyjum. Bróðir hennar Dýrfinnu boxaði, en það er líka mjög stórt þar austur frá og svo vorum við náttúrulega með filippseyskan mat,“ segir Melanie.

Foreldrar þremenninganna sáu um eldamennskuna og féll hún gífurlega vel í kramið hjá gestunum.

„Það var mjög sætt. Við buðum til dæmis upp á hrísgrjónarétt sem er vafinn inn í bananalauf, það er flókið og mikil vinna að gera þannig. Tekur margar klukkustundir að búa þannig til.“

Karokí nánast trúarbrögð

Melanie segir að það hafi verið mjög vel mætt á sýninguna.

„Það myndaðist bara mjög góð stemning, sérstaklega í kringum matinn. Þá verður þetta ekki alveg jafn þvingað. Okkar pæling sem listamennirnir þrír var að taka yfir Kling og Bang og bjóða öðrum í okkar rými. Við erum að bjóða gestum að vera partur af því.“

Hún segir Filippseyinga taka karókímenningu mjög alvarlega, og því settu þau upp altari sem á var varpað karókíi.

„Textinn fór yfir altarið. Þar myndaðist góð stemning og fólk var farið að syngja með. Karókí er alveg rosalega stór partur af menningunni. Fólk tekur því svo alvarlega að það er nánast eins og trúarbrögð. Við vildum endilega að fólk tæki lag,“ segir Melanie.

Sýningin er í Kling og Bang, Grandagarði 20, og stendur yfir til 12. janúar.