DC hefur leyst leikkonuna Amber Heard undan samningi, en hún segist ekki viss um hvort hún komi fyrir í kvikmyndinni þrátt fyrir að búið sé að taka upp öll atriði hennar.

Hún greindi frá þessu í réttarhöldum í máli sem Johnny Depp, leikari og fyrrverandi eiginmaður hennar, höfðaði gegn henni.

„Þau riftu samningnum mínum en ég barðist fyrir því að vera áfram,“ útskýrði Heard í vitnastúkunni. „Ég veit ekki einu sinni hvort ég verði í kvikmyndinni eftir að búið er að klippa hana,“ bætti hún við.

Johnny Depp stefnir Amber Heard fyrir meiðyrði og fer fram á um 50 milljónir Bandaríkjadala í bætur.

.Amber Heard segist ekki viss um hvort hún komi fyrir í kvikmyndinni Aquaman 2, sem verður frumsýnd á næsta ári.
Fréttablaðið/Getty images

Amber Heard sakaði Johnny Depp um ofbeldi í aðsendri grein hjá Washington Post. Eftir það var mikið fjallað um samband þeirra hjóna, meðal annars í breska götublaðinu The Sun, þar sem Depp var kallaður ofbeldismaður. Depp stefndi blaðinu fyrir meiðyrði en tapaði þegar dómstólinn úrskurðaði að blaðið væri ekki skaðabótaskylt gegn leikaranum og þurfti ekki að draga orð sín um leikarann til baka.

Ásakanir hafa gengið á víxl milli hjónanna fyrrverandi undanfarin misseri. Eftir að fyrstu ásakanir komu fram settu aðdáendur Johnny Depp á laggirnar undirskriftalista um að klippa út hlutverk Heard úr DC kvikmyndinni Aquaman og að skrifa út hlutverk hennar í framhaldsmyndinni. Hátt í þrjár millj­ón­ir manna hafa skrifað und­ir und­ir­skriftal­istann.