Leikarinn David Schwimmer, sem er hvað helst þekktur fyrir leik sinn sem Ross Geller í vin­sælu sjón­varps­þáttunum Fri­ends, ræddi við spjall­þátta­stjórnandann Jimmy Fall­on á dögunum um at­riðið sem hefur verið hvað mest rök­rætt meðal að­dá­enda þáttanna.

Það er að sjálf­sögðu hin um­deilda „pása“ Ross og Rachel, sem Jenni­fer Ani­ston lék eftir­minnan­lega, en að­dá­endur eru ekki allir sam­mála um hvort þau hafi í raun verið í pásu. Sjálfur stendur Schwimmer með karakter sínum, þrátt fyrir að fjöl­margir að­dá­endur séu ó­sam­mála honum.

„Þetta er ekki einu sinni spurning. Þau voru í pásu,“ sagði Schwimmer við Fall­on léttur í bragði.

Tökur á nýjum þætti áætlaðar í ágúst

Þá ræddi Schwimmer einnig um endur­fundar­þátt Fri­ends sem hefur verið í vinnslu frá því fyrr á árinu og átti að vera sýndur í maí en var síðan frestað vegna CO­VID-19 heims­far­aldursins. Að sögn Schwimmer er stefnt á að þátturinn verði tekinn upp í næsta mánuði en að mögu­lega þurfi að endur­skoða það.

Líkt og áður hefur verið greint frá munu allir sex vinirnir, Jenni­fer Ani­ston, Cour­ten­ey Cox, Lisa Kudrow, Matt LeBlanc, Matt­hew Perry og David Schwimmer, snúa aftur í þættinum og mun Ben Win­ston leik­stýra. Þá munu aðal­fram­leið­endurnir, Kevin Brig­ht, Marta Ka­uff­man og David Cra­ne, fram­leiða þáttinn auk vinanna.