Það varð allt vitlaust þegar fyrsta ljóðabókin hans Davíðs kom út árið 1919. Hann varð bara rokkstjarna á einni nóttu,“ segir María Pálsdóttir, leikari og frumkvöðull, og á að sjálfsögðu við Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi. María verður gestgjafi í Menningarhúsinu Hofi klukkan 15 á morgun, sunnudag. Þar taka Amtsbókasafnið, Davíðshús, Hof og Minjasafnið höndum saman og bjóða gestum til stofu að minnast skáldsins og ljóðanna í tilefni hundrað ára útgáfuafmælis Svartra fjaðra.

„Við byrjum á innslagi frá Vandræðaskáldunum sem eru Sesselja Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragafólk, leikhúsfólk sem er svo lagvisst, hagyrt og fjölhæft að það hálfa væri fallegt. Þau eru að sýna í leikhúsinu á sama tíma svo þau fóru í Davíðshús og hentu í upptöku sem við ætlum að sýna. Gestir í sófaspjalli verða Guðmundur Andri Thorsson sem allir þekkja, Valgerður H. Bjarnadóttir sem hefur unnið í Davíðshúsi og kafað ofan í skáldið og manninn, ljóðin hans og líðan og Pétur Halldórsson sem hefur stúderað Davíð,“ segir María er hún lýsir dagskránni í hnotskurn.

„Sófaspjallið verður brotið upp með tónlist. Kammerkór Norðurlands ætlar að flytja fjögur lög samin við ljóð Davíðs og Þórhildur Örvars og Helga Kvam eru með þrjú frumsamin lög. Svo er einn í viðbót, Ólafur Sveinn Traustason, ungur tónlistarmaður í skapandi deild Tónlistarskólans á Akureyri. Hann frumflytur nýtt lag við eitt af ljóðunum úr Svörtum fjöðrum, með aðstoð Eddu Borg söngkonu. Þetta verður veisla,“ lofar María. Hún segir ætlunina að hafa andrúmsloftið létt og skemmtilegt, ekki of hátíðlegt og uppskrúfað. „En það koma þarna kannski fram staðreyndir sem fólk veit ekki,“ segir hún og tekur fram að allir séu velkomnir meðan húsrúm leyfir og ekkert kosti inn.