Kvikmyndir

★★★
Mortal Kombat
Leikstjórn: Simon McQuoid
Leikarar: Lewis Tan, Jessica Mc­Namee, Josh Lawson, Joe Taslim, Hiroyuki Sanada

Staðalímyndin um tölvuleiki sem ofbeldisfulla vitleysu rekur rætur sínar að stórum hluta til bardagaleikjaseríunnar Mortal Kombat. Það er ekki hægt að segja að hún sé illa ígrunduð en þegar fyrsti leikurinn braust inn á markaðinn snemma á tíunda áratugnum var ofbeldið þvílíkt að það fékk rammheiðnasta fólk til að signa sig og krossa.

Leikirnir mokseldust og fólk kepptist við að rífa höfuðið hvert af öðru með tilheyrandi hryggjarsúlu. Í kjölfar gríðarlegra vinsælda kom svo út skemmtileg ræma byggð á leikjunum úr smiðju Paul W.S Anderson. Þótt nýir Mortal Kombat leikir hafi verið gefnir út með reglulegu millibili hefur Mortal Kombat- æðið hafi aðeins dalað síðan þá og kom því aðeins á óvart að sjá að ný mynd væri í smíðum.

Myndin segir frá misheppnaða MMA-kappanum Cole Young sem dregst inn í aðdraganda bardagamóts þar sem örlög heimsins eru í húfi. Þar etja bardagamenn jarðarinnar kappi við útsendara Útheimsins, annarrar víddar, sem verður best lýst sem drungalegu skíta­pleisi. Takist Útheiminum að vinna mótið er öll von úti fyrir jörðina en til að tryggja sér sigur ákveður vondi kallinn að koma keppendum jarðarinnar fyrir kattarnef áður en mótið byrjar.

Lambert er sárt saknað í hlutverki sínu sem þrumuguðinn Raiden.

Furðuleg atburðarásin gengur hratt fyrir sig og blessunarlega er aldrei staldrað við til að spyrja neinna spurninga. Áhorfendur komu jú til að sjá slagsmál og þar er enginn skortur á. Að aðalpersónunni undanskilinni bregður nógu af kunnuglegum andlitum úr leikjunum fyrir í myndinni. Þótt sagan verði seint kölluð grípandi eru hatrammar deilur erkifjendanna Sub Zero og Scorpion ansi góðar og opnunarsenan líklega hápunktur myndarinnar. Þá ber kjaftfori Ástralinn Kano af með drepfyndinni gagnrýni sinni á framvindu mála.

Lykilatriðið við að útfæra Mortal Kombat yfir á hvíta tjaldið er þó auðvitað hrottalegt ofbeldið og það tekst upp á tíu. Hér eru engin vindhögg og bardögunum lýkur ekki fyrr en einhver liggur í valnum. Frumlegheitin vantar ekki í banabitunum (e. fatality) og skírskotanir í tölvuleikina eru svo beinar að það jaðrar við að persónurnar horfi í myndavélina og blikki áhorfendur.

Helsti vankantur myndarinnar verður að teljast aðalpersónan Young sem er drepleiðinlegur og á enn leiðinlegri fjölskyldu. Þótt ef til vill sé auðveldara að segja söguna frá sjónarhorni þorsks á þurru landi þá hefði vel verið hægt að velja persónu úr leikjunum til að sinna aðalhlutverkinu. Sonya Blade sinnir nánast sama hlutverki og hefði unað sér betur í forgrunni. Þá er tónlistin ekki jafn góð og í forvera myndarinnar frá 1995 þrátt fyrir tilraunir til að útfæra klassískt stefið í nútímabúning.

Á heildina litið er Mortal Kombat fínasta skemmtun. Þótt hún taki sig ekki alvarlega hefði þó verið hægt að bæta eitt og annað, en þar sem nú þegar er búið að tilkynna frekari framhaldsmyndir mun gefast nægur tími til að slípa hitt og þetta í framtíðinni.

Niðurstaða: Skemmtileg þvæla sem er fínn byrjunarpunktur fyrir framhaldið.