Leikhús

Útsending

★★★

Þjóðleikhúsið

Höfundur leikrits: Lee Hall.

Byggt á kvikmyndahandriti eftir Paddy Chayefsky

Leikstjóri: Guðjón Davíð Karlsson

Leikarar: Pálmi Gestsson, Birgitta Birgisdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Sigurður Sigurjónsson, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Örn Árnason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Arnar Jónsson, Edda Arnljótsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Hildur Vala Baldursdóttir og Gunnar Smári Jóhannesson

Leikmynd: Egill Eðvarsson

Búningar: Helga I. Stefánsdóttir

Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Tæknihönnun: Björn Helgason

Tónlist: Eðvarð Egilsson

Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson, Kristján Sigmundur Einarsson og Eðvarð Egilsson

Myndbönd og grafík: Ólöf Erla Einarsdóttir

Þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson

Fréttastofur eru jafnaðar við jörðu og hringleikahús byggð í staðinn. Forsetar eru kosnir með aðstoð áróðurssjónvarpsstöðva. Spámenn ljósvakans hræða líftóruna úr áhorfendum sínum á meðan þeir selja fæðubótarefni á heimasíðum sínum. Kynlíf og dauði selja auglýsingar. Áhorf skiptir öllu. Útsendingin er í beinni allan sólarhringinn. Þetta er fjölmiðlafrumskógur nútímans og hugmyndir sem eru tæklaðar í Útsendingu sem er leikstýrt af Guðjóni Davíð Karlssyni á Stóra sviði Þjóðleikhússins.

Kveikir undir brjálseminni

Kvikmyndin Network var frumsýnd árið 1976 og margt hefur breyst í samfélaginu á síðustu 44 árum, sérstaklega hvað samfélagsmiðla varðar, en mannskepnan er ávallt söm við sig. Kvikmyndahandritið var skrifað af Paddy Chayefsky en Lee Hall skrifaði aðlögun fyrir svið árið 2017, hann aðlagaði einnig Shakespeare verður ástfanginn. Á yfirborðinu snýr söguþráðurinn að uppgjöf, upphafningu og örlögum fréttaþularins Howards Beale en fjallar líka um umbreytingu fréttaflutnings í heiminum síðustu áratugina og hvaða áhrif þessar breytingar hafa bæði á einstaklinga og samfélagið í heild sinni. Kristján Þórður Hrafnsson þýðir og hefur hann oft og tíðum verið ansi lunkinn í sinni vinnu en er ekki nægilega lipur hér; samtöl hökta, orðaval er stirt og samskipti milli persóna ná sjaldan því hraða tempói sem til þarf. Ekki góður grunnur fyrir handrit sem byggir á snörpum tilsvörum og stórum hugmyndum.

Pálmi Gestsson leikur þulinn Howard Beale sem er annaðhvort á barmi taugaáfalls eða hefur nýlega fengið uppljómun um hinn heilaga sannleika, kannski hvort tveggja. Til að byrja með virðist Pálmi frekar lumpinn í sínum leik en logandi, jafnvel óöruggur í hlutverki sínu. Um miðbik sýningar kveikir Pálmi undir brjálseminni og sýnir hversu magnaður leikari hann getur verið. Þröstur Leó Gunnarsson er einn af hæfustu leikurum landsins en finnur sig aldrei í hlutverki Max. Sömuleiðis er metnaðarfulli dagskrárgerðarstjórinn Díana, leikin af Birgittu Birgisdóttir, fremur einstrengingsleg og sjaldan sannfærandi.

Steinunn Ólína fer á kostum

Þessi óheilaga þrenning er umkringd aukapersónum sem eiga að dýpka heim verksins en þær virka frekar sem skammvinn skemmtun frekar en þrívíðar persónur. Atli Rafn Sigurðarson leikur hinn dólgslega Hackett og nær að spenna upp sínar senur en skilur lítið eftir sig. Hallgrímur Ólafsson á ágætis innkomur en áhorfendur kynnast persónunni lítið. Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Edda Arnljótsdóttir sýna krafta sína í einstaka senum, þeirra hæfileika þarf að nýta miklu betur innan veggja Þjóðleikhússins. Fjöldi frambærilegra leikara fer með smærri hlutverk í sýningunni þar á meðal Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason, Snæfríður Ingvarsdóttir, Gunnar Smári Jóhannesson, Baldur Trausti Hreinsson og Arndís Egilsdóttir en yfirborðskennd leikstjórn, sem rædd verður frekar hér á eftir, heftir þeirra vinnu.

Þó eru tveir leikarar í smærri hlutverkum sem verður að nefna sérstaklega. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir fer á kostum í hlutverki Louise, eiginkonu Max. Í einungis tveimur atriðum tekst henni að skapa eftirminnilega, heilsteypta og lifandi persónu. Eiginlega er óskiljanlegt af hverju í ósköpunum Max tekur þá ákvörðun að fara frá henni. Arnar Jónsson sýnir sömuleiðis hvers hann er megnugur með tveimur þrumuræðum en atriðin hans eru ekki nægilega vel uppbyggð til að hann fái að njóta sín að fullu.

Skortur á snerpu

Handritið er uppfullt af hugmyndum, ádeilu og húmor en hér vantar fjörið, tætinginn og orkuna sem fyrirfinnst í beinni útsendingu. Slíkt verður að skrifast á Guðjón Davíð sem nær aldrei föstum tökum á efninu. Metnaðurinn er kannski til staðar en samleikur leikaranna á sviðinu er sjaldan dillandi eða neistandi. Listræn nálgun hans er ekki nægilega afgerandi, uppbrotin í sýningunni virðast tilviljunarkennd og af þeim sökum skortir sýninguna snerpu. Að auki má nefna að hvergi í auglýsingaefni Þjóðleikhússins birtist nafn Belgans Ivo van Hove, eins merkilegasta sviðsleikstjóra seinni tíma, eða hönnuðarins Jan Versweyveld sem komu að upphaflegu uppsetningunni. Fagurfræði þeirra eimar af sviðinu en útfærslan er útvötnuð.

Egill Eðvarðsson er happafengur fyrir sýninguna samt sem áður, enda einn reyndasti sjónvarpsmaður landsins. Hann hólfar sýninguna fallega inn en samspil á milli hönnunar og leikstjórnar er ekki nægilega gott. Sérstaklega þakklátt er að sjá verk Andy Warhol af Elizabeth Taylor í hlutverki Kleópötru á stofuvegg Arthur Jenssen, vísun í þær fimmtán frægðarmínútur sem Warhol sá fyrir. Björn Helgason sér um tæknihönnun sýningarinnar sem er stór í sniðum og flókin en hefði mátt nýta betur í listrænni framkvæmd.

Ólöf Erla Einarsdóttir sér um myndbönd og grafík sem leika stórt hlutverk í Útsendingu og njóta sín almennt vel, sérstaklega í senum Jensen, en þarf að virkja betur í heildartúlkuninni. Hljóðmynd og tónlist eru sömuleiðis ekki nægilega afgerandi. Verkefni Helgu I. Stefánsdóttur er ærið enda sér hún um að endurskapa fagurfræði sjötta áratugarins og gerir vel að mörgu leyti en því miður draga litríkir búningarnir, sem og fjölmörg óþörf búningaskipti, fókusinn frá söguþræðinum.

Saga fyrir okkar tíma

Hvað gerist þegar fréttasnáparnir og spámenn samtímans heillast af áhorfendatölum og heilögum sannleika sem selur grimmt? Nýlega svipti ung sjónvarpskona í Bretlandi sig lífi en hún hafði um árabil unnið í bresku sjónvarpi og nánast frá byrjun verið hundelt af gulu pressunni. Caroline Flack er ekki fyrsta né heldur, því miður, síðasta manneskjan sem er fórnað á altari áhorfsins og sorgleg áminning um eitraðan heim æsifréttamennskunnar. Útsending er svo sannarlega saga fyrir okkar tíma, þar sem fjölmiðlar eru orðnir að hringleikahúsi skemmtunar, en þrátt fyrir ágæta frammistöðu leikaranna er úrvinnslan á þessu frábæra handriti gölluð og á endanum bitlaus.

NIÐURSTAÐA: Orkulítil sýning sem líður fyrir yfirborðskennda leikstjórn.