Aðalpersónan í Tunglið, tunglið taktu mig er Máney sem á heima í sveitinni hjá afa og ömmu. „Líf hennar breytist þegar baldinn strákur kemur í sveitina. Sagan fjallar um baráttu þeirra tveggja, hvernig stelpa á einhverfurófi reynir að mýkja strákinn og sýna honum hversu dýrlegt er að búa í sveitinni. Svo lenda þau að sjálfsögðu í ævintýrum og lífsháska,“ segir Þorgrímur. Sjálfur var hann alinn upp í sveit og segir mikilvægt að börn fái innsýn í það hvernig lífið var fyrr á árum.

„Ég er mjög ánægður með þessa sögu, virkilega stoltur af henni og hlakka til að hún fari í hendur á lesendum,“ segir hann.

Heilræði og hvatning

Í þrettán ár hefur Þorgrímur haldið fyrirlestra í skólum undir yfirskriftinni Verum ástfangin af lífinu. Á þessum tíma hefur hann talað við um 60.000 nemendur í 10. bekk. Nú er orðin til bók, unnin upp úr þessum fyrirlestrum, sem kemur út um miðjan nóvember. „Flest sem ég hef sagt við ungt fólk í þrettán ár er í þessari bók sem er mjög fallega hönnuð af Höllu Sigríði Margrétardóttur hjá Forlaginu. Ég er meðal annars að fjalla um heilastarfsemina, hvað skýrir hegðun okkar, mikilvægi svefns og daglegrar hreyfingar. Földi þekktra einstaklinga og fyrirmynda er með heilræði í bókinni. Þá segi ég frá því sem tvö barna minna hafa verið að glíma við. Þetta er bók fyrir ungmenni en ekkert síður fyrir foreldra,“ segir Þorgrímur. „Við erum öll að glíma við eitthvað í lífinu, fram eftir öllum aldri. Við fáum ekki góðar einkunnir í jólagjöf eða sjálfstraust í afmælisgjöf, heldur verðum við að leggja okkur fram dagsdaglega, sinna litlu hlutunum, til þess að blómstra. Bókin geymir heilræði og hvatningu til ungs fólks. Ég hefði viljað lesa svona bók sem foreldri ungmenna.“

Frábær viðbrögð

Spurður hvort hann sé mjög vinnusamur segir Þorgrímur svo vera. „Ég held fyrirlestra alla virka daga og um helgar vakna ég snemma og mæti á kaffihús til að skrifa. Kvöldin eru líka mikilvæg. Það er dásamlegt að skrifa fyrir börn og ungmenni og ég fylgi heilræðum bókarinnar; starfa við það sem ég elska.“

Hann segir mjög gefandi að vera í mikilli nánd við ungmenni. „Þú getur rétt ímyndað þér hvernig það er að vera á nýjum vinnustað á hverjum einasta degi og hitta þakkláta krakka sem kunna að meta uppbyggilega fræðslu. Ég fæ iðulega póst frá nemendum eftir fyrirlesturinn, því þeir þora frekar að opna sig undir fjögur augu en í fjölmenni. Viðbrögðin hafa fram til þessa verið frábær. Börn og ungmenni skynja heilindi og heiðarleika og það er mitt hlutverk að hvetja þau til dáða.“