Hlín Ósk skartgripahönnuður hefur alla tíð haft mikla þörf fyrir að skapa. Það kemur ekki síst fram fyrir jólin því hún byrjar snemma að undirbúa og skreyta.

Hlín sem rekur verslun og netverslunina Óskabönd segir að desember sé annasamur á vinnustofunni hjá henni. „Jólastemmingin byrjar með því að skera út laufabrauðið, baka nokkrar smákökutegundir, setja upp jólatré og skreytingar. Síðan er það ómissandi hluti af jólahaldinu að fara í kirkju á aðfangadag,“ segir hún.

„Samverustundir með fjölskyldunni eru svo skemmtilegar, góður matur og kósíheit. Yngsta dóttir mín er mikið jólabarn og hún heldur mér alveg við efnið þegar kemur að skreytingum. Það bætist alltaf smávegis við af jólaskrauti á hverju ári, ég er veik fyrir hreindýrastyttum og á orðið gott safn af þeim. Hreindýr eru í miklu uppáhaldi og mér finnst þau mjög falleg.

Desember er annatími í versluninni Óskaböndum. Hlín Ósk gerir margvíslega fallega skartgripi.
Þessi fallegi hnotubrjótur stendur vaktina hjá Hlín Ósk til jóla.

Ég var alltaf mjög dugleg að baka fyrir jólin en nú hefur dóttir mín eiginlega tekið við keflinu á heimilinu. Nóvember og desember eru orðnir annasamir hjá mér í skartinu. Við bökum samt alltaf lakkrístoppa og skinkuhorn. Yfirleitt þurfum við að baka lakkrístoppana nokkrum sinnum því þeir klárast alltaf strax. Ikea-kökurnar hafa líka verið vinsælar á heimilinu, það er einfalt og þægilegt að baka þær og húsið ilmar,“ segir Hlín Ósk sem hannar allt sjálf og býr til stærsta hlutann af skartinu. „Smávegis læt ég framleiða fyrir mig,“ segir hún.

„Það er mjög misjafnt hvað er vinsælast til gjafa en orkusteinafestarnar og orkusteinaarmböndin eru vinsæl ásamt fíngerðum keðjum og armböndum í stíl. Eyrnalokkar og hringir eru alltaf vinsæl gjöf.“

Hlín er mikill aðdáandi hreindýra og á orðið dágott safn af þeim.
Kertaljós eru ómissandi þegar jólin nálgast og skammdegið ræður ríkjum.

Hlín Ósk er með vinnustofu og verslun í Þrúðsölum 17 í Kópavogi og vefverslunina oskabond.is. „Ég var áður bara í einu herbergi sem var orðið ansi þröngt fyrir starfsemina, núna njóta gersemarnar sín svo vel og það fer mjög vel um mig í nýja rýminu, einnig er gaman að taka á móti fólki þegar það er nóg pláss, og ég er orðin mjög spennt að hitta sem flesta viðskiptavini fyrir jólin, en bóka má tíma á oskabond@oskabond.is,“ segir hún.

„Mér finnst jólin vera yndislegur tími og það er mikið skreytt í mínu hverfi utanhúss. Það er svo frábært og fallegt að lífga upp skammdegið með jólaljósum. Síðan leggur maður mikið upp úr jólunum. Síðustu ár hef ég haft smjörfyllt kalkúnaskip á aðfangadag og krakkarnir mínar vilja alls ekki breyta því, en annars er ég sjálf alin upp við rjúpur.“

Nammikrukkurnar eru líka með hreindýraskrauti og sóma sér vel.