Það er alltaf gaman að prófa nýja rétti. Þessi franski kjúklingaréttur er einstaklega ljúffengur.

Franskur kjúklingaréttur

1,8 kg heill kjúklingur

2 msk. hveiti

Salt og pipar

250 ml riesling hvítvín (ekki mjög sætt, má líka nota rauðvín)

2 skallottlaukar, skornir í fjóra hluta

20 perlulaukar

2 msk. tómatpúrra

200 ml rjómi

16-20 kastaníusveppir

500 g kjúklinga- eða nautasoð

50 ml ólífuolía

Búnt af ferskri tarragon, smátt skorið (sama og estragon eða fáfnisgras)

25 g smjör

Skerið kjúklinginn í átta bita. Veltið lauslega upp úr hveiti. Saltið og piprið. Hitið olíu á stórri, djúpri pönnu og steikið kjúklinginn á meðalhita og eldið á báðum hliðum í nokkrar mínútur eða þangað til skinnið verður gullinbrúnt. Takið til hliðar.

Notið sömu pönnu áfram og steikið laukinn og sveppina. Setjið tómatpúrru saman við og síðan vínið. Látið suðuna koma upp og bætið síðan soðinu saman við. Þegar allt hefur blandast vel saman er rjómanum bætt við ásamt tarragonkryddinu og smjörinu. Skiljið smávegis eftir til að nota sem skraut í lokin. Setjið kjúklinginn í sósuna og látið allt malla í 50 mínútur. Má líka setja í ofn.

Með réttinum er borin fram kartöflumús sem upplagt er að útbúa á meðan rétturinn mallar. Þegar rétturinn er borinn fram er hann skreyttur með tarragon.

Bláberjabaka með vanilluís. Hvað er hægt að fá betra í eftirrétt?

Bláberjabaka

Hér er mjög góð uppskrift að bláberjaböku sem er dásamlegur eftirréttur.

Margir hafa verið í berjamó að undanförnu og þess vegna ekki úr vegi að nota berin í svona sælkerabakstur. Það má auðvitað líka nota bláber úr frysti eða þau sem fást í verslunum.

Botninn

1 vanillustöng

Rifinn börkur af hálfri sítrónu

160 g hveiti

60 g sykur

85 g smjör

1 egg

Fylling

1 egg

1 dl sykur

1 dl rjómi

3 dl bláber

Punt

1 dl bláber

2 msk. sykur

Kljúfið vanillustöngina í tvennt og skrapið út fræin með litlum hníf. Rífið sítrónubörkinn. Setjið börkinn og vanillufræin í matvinnsluvél áamt hveiti, sykri og smjöri og hnoðið. Bætið við egginu og hnoðið áfram. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í ísskáp í að minnsta kosti 20 mínútur.Fletjið deigið út á milli tveggja laga af bökunarpappír. Deigið á að vera 2-3 mm á þykkt. Smyrjið bökuform sem er 20 cm og klæðið það með deiginu. Skerið frá það sem fer út fyrir barmana. Pikkið deigið með gaffli og setjið í ísskáp í 10 mínútur. Hitið ofninn í 180°C. Bakið botninn í 10 mínútur. Kælið.

Þeytið egg, sykur og rjóma. Fyllið botninn með bláberjum og hellið síðan blöndunni yfir. Bakið áfram í 25-30 mínútur við 180°C. Kælið.

Skreytið bökuna með bláberjum og dreifið smá sykri yfir. Vanilluís passar mjög vel með bökunni. ■