María Gomez heldur úti matarblogginu Paz.is sem ætlað er nautnaseggjum sem hafa gaman af því að baka og elda góðan mat án mikillar fyrirhafnar, en flestar uppskriftirnar eru í einfaldari kantinum. María er mikill sælkeri og segist alltaf hafa haft gaman af því að reyna fyrir sér í eldhúsinu og fáum við að birta úrval uppskrifta úr fórum hennar.

1 1/2 bolli volgt vatn

2 og 3/4 tsk. þurrger (besta að nota Instaferm eða Instant Yeast)

4 bollar hveiti

1 msk. dökkur púðursykur

2 tsk.salt

Vatnsbað

1800 ml vatn

1/4 bolli hunang

Þessu má alls ekki sleppa en þetta er það sem gerir beyglur að beyglum

Fræblanda ofan á

3 msk birkifræ

3 msk sesamfræ

1 og 1/2  msk gróft salt

1 eggjahvíta með 1 msk af vatni hrært saman til að pensla með

Hrærið saman volgu vatni og geri. Látið standa í 5 mínútur.

Setjið saman hveiti, salt og sykur í hrærivélarskál og hrærið með króknum í örlitla stund.

Meðan hrærivélin er á meðalhraða bætið þá gerblöndunni út í hægt og rólega þar til hún er öll komin saman við.

Lækkið nú hraðann í hægan þar til gerblandan er alveg komið inn í deigið, sem getur virkað smá tætt á þessu stigi, en þannig á það að vera.

Þegar það er orðið tætingslegt hækkið þá hraðann aftur í medium og hnoðið í 8 mínútur stanslaust.

Deigið er mjög stíft og virkar þurrt en alls ekki freistast til að setja meiri vökva í það, það er alveg bannað.

Ef deigið brotnar eða dettur í sundur er gott að slökkva á hrærivélinni meðan maður lemur deiginu í botninn á skálinni og heldur svo áfram í þessar 8 mínútur með hnoðarann.

Setjið hveiti á borð og smyrjið skál að innan með olíu eða cooking spreyi.

Myndið kúlu úr deiginu á borðinu og nuddið henni svo á kantana á skálinni svo að það komi fita allt um kringum hana leggið ofan í skálina.

Setjið stykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í 1 og 1/2  klst eða þar til það hefur tvöfaldast að stærð.

Þegar deigið er búið að hefast lemjið þá allt loft úr því og skiptið í 8 parta.

Setjið bökunarpappír á tvær skúffur og byrjið að móta beyglurnar með því að gera 8 kúlur úr því og stinga svo einum putta í gegnum kúluna.

Togið svo gatið út eins breitt og þið viljið hafa það (stærra því betra því það skreppur saman í ofninum). Stækkið það með því að troða öðrum fingri með í gatið og glenna það í sundur.

Setjið 4 beyglur á hverja skúffu og breiðið klút yfir þær.

Byrjið svo að undirbúa vatsnbaðið með því að setja vatnið og hungangið í pott og láta byrja að sjóða. Lækkið svo undir þannig vatnið sjóði rétt svo.

Hitið ofninn á 210-220 C°blástur og gerið fræblönduna.

Setjið svo 2-3 beyglur ofan í vatnsbaðið og sjóðið í 1 mínútu á hverri hlið og veiðið upp úr með spaða og passa að láta allt vatn leka vel af.

Raðið nú á plötuna aftur og penslið með eggjahvítuvatnsblöndunni og dífið báðum megin ofan í fræblönduna.

Bakið svo 4 beyglur á skúffu í 20-25 mínútur, en gott er að snúa plötunni eftir 12 og hálfa mínútu til að þær bakist allar jafnt.

Þær eiga að vera svona dökkgyllinbrúnar á litinn.