„Við vorum búin að ræða gegnum árin að það væri gaman að prófa að búa erlendis einn vetur. Svo var ég mjög slæm af gigt og Örn að jafna sig eftir veikindi og þá fannst okkur kjörið að flýja veturinn og það var bara alveg yndislegt. Við fórum út 25. nóvember og komum heim 28. apríl þannig að þetta var alveg dágóður tími,“ segir Ágústa en þau Örn dvöldu hjá Villa Martin-golfvellinum í Torrevieja á Costa Blanca-ströndinni í Alicante þar sem hitinn er kringum 20 gráður á þessum árstíma. „Við vorum svo heppin að við hittum á Íslending sem leigði okkur bíl allan tímann og það var mikill kostur því við vorum með golfsett og það er alveg vonlaust að vera í golfi án þess að hafa bíl.“

Þau hófu dvölina á því að vera tvær vikur við ströndina í Cabo Roig. „Það er alveg yndislegur staður, við gátum labbað á ströndina og út í búð og alveg hægt að vera bíllaus ef þú ert ekki í golfi,“ segir Ágústa og bætir við að þarna séu veitingastaðir úti um allt. „Við borðuðum úti á hverju kvöldi þarna til að byrja með og nenntum ekkert að elda, vorum bara á ströndinni og kynntumst öllu þannig að þegar ekki viðraði til golfferða þá fórum við bara þangað og löbbuðum á ströndinni.“

Að stranddvölinni lokinni fóru þau svo í fyrirheitna landið, golfvöllinn Villa Martin. „Þar vorum við í nýlegri blokk sem við leigðum af Íslendingi gegnum Spánarheimili. Við vorum þar í næstum hálft ár og hefðum eftir á að hyggja átt að kynna okkur smáa letrið því íbúðin var ekki búin til langtímadvalar, þar voru til dæmis ekki þau lágmarkseldhúsáhöld sem þarf til að halda heimili í einhvern tíma eins og pískar, sigti eða handþeytari, svo við gátum til dæmis ekki gert þann jólamat sem við hefðum viljað. Fólk verður leitt á því að fara út að borða á hverju kvöldi í svona langan tíma.“

Golfið átti hug þeirra og hjarta og Ágústa segir alla aðstöðu til golfiðkunar hafa verið til mikillar fyrirmyndar. „Við spiluðum golf tvisvar til þrisvar í viku og kynntumst fólki frá öllum heimshornum sem var þarna í sama tilgangi. En svo af því við höfðum bílinn þá gerðum við líka svolítið af því að skoða okkur um. Þetta er svo fallegur staður og margt að sjá.“

Á þessu svæði er mikið um Íslendinga sem hafa stofnað með sér félög og bar og hittast reglulega. „Það er mikið öryggi í því að vita að ef eitthvað kemur upp á þá er hægt að fá ráðleggingar og leiðbeiningar og aðstoð,“ segir Ágústa.

Ágústa mælir heils hugar með þessari aðferð til að heimsækja þessar slóðir á Spáni og kanna möguleika á meiri skuldbindingu. „Það er mjög gott að prófa að gera þetta svona og ef þér líkar við Spán og langar að fara aftur og aftur þá geturðu farið að velta fyrir þér að kaupa fasteign. Ég myndi segja að það væri mikilvægt að kynna sér og prófa allskonar staði áður en þú rýkur í að kaupa.“

Um jól og áramót hittist fólk á ströndinni í Cabo Roig og gerir sér þar glaðan dag. Mynd/úr einkasafni
Örn að golfleik á 17. holu en vegna þess að gil klýfur brautina miðja telst hún vera par 3.