Ég var svo heppin að rekast á metsölubók Meiks Wiking, forstjóra dönsku Hamingjurannsóknarstöðvarinnar, árið sem hún kom út, 2016. Bókin heitir „A little book for hygge; Danish secrets to happy living“ og sem starfandi sálfræðingi sem aðstoðar fólk sem berst við streitu og álag, gengur í gegnum áföll og erfiðleika, og hefur miklar áhyggjur af kulnun, fannst mér „hygge“ vera áhugavert sem mótvægi,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur, kennari og ritstjóri.

Bók Meiks Wiking hefur síðan verið gefin út á 39 tungumálum og verið á toppi metsölulista um allan heim, austan hafs og vestan.

„Í bókinni dregur Meik fram viðhorf og siði í dönsku samfélagi sem er að „hygge sig“ og tengir við þá staðreynd að Danir hafa æ ofan í æ mælst með hamingjusömustu þjóðum heims. Því er eðlilegt að leita í fjársjóð þeirra að galdrinum sem bætir lífið og eykur hamingjuna og fólk þyrstir í að kynna sér hvernig hægt er að nýta „hygge“ til að bæta líðan og lífsgæði,“ upplýsir Kristín Linda, sem stendur fyrir nokkrum námskeiðum hjá Endurmenntun HÍ á vorönn, þar á meðal „Aukum eigin lífsgæði og hamingju með – Hygge“, um huggulegan lífsstíl að hætti Dana.

„Huggulegur lífsstíll eykur jafnvægi í lífinu og getur unnið á móti streitu og álagi. Það er slítandi að sækjast eftir hamingju með sífelldri eftirsókn eftir nýjum sigrum, markaðsdrifinni hegðun og afrekum; eitthvað annað þarf til. Með því að nota „hygge“ sem viðmið og gildi í eigin lífi öðlast maður léttara, ljúfara og streituminna líf, aukna sæld og gleði og hamingju á einfaldan hátt,“ upplýsir Kristín Linda.

Heilnæm huggulegheit

Dæmi um hugglegan lífsstíl er að koma heim úr vinnu, vefja sig inn í teppi, kveikja á kertum og setja á notalega tónlist sem veldur vellíðan í stað þess að fara á span við eitthvað sem krefst árangurs, hlusta á áreiti auglýsinga eða álagstengdar fréttir.

„Eftir langan vinnudag hella margir sér í áframhaldandi verkefni sem útheimta árangur. Maðurinn í Áramótaskaupinu, sem týndi snjallúrinu sínu, er gott dæmi um þetta og var eyðilagður vegna þess að hann gat ekki mælt árangur sinn í einu og öllu, en með því að setja hygge-stimpil á lífið verður þér ljóst að það er ekki síður endurnærandi að fara í bað með kertaljós en að fara á erfiða þrekæfingu. Vitaskuld þurfa svo allir á hreyfingu að halda en ekki til að sýna frammistöðu og eftir vinnu á tilveran að vera afslöppuð og auðveld eftir því sem hægt er,“ segir Kristín Linda.

Annað dæmi um „hygge“ er að fara frekar út með nestiskörfu eftir vinnu og setjast á fjörustein í stað þess að drífa sig í spandexgalla og hjóla sem hraðast í kringum Reykjavík.

„Þar getur „hygge“ verið gott leiðarljós. Það hefur allt önnur áhrif á taugakerfið og okkur er mikilvægt að fá slökun og rósemd í líf okkar og vera sátt, glöð og yfirveguð með það,“ segir Kristín Linda.

Taugakerfið þarf pásu

Kristín Linda segir ekki að ástæðulausu að mikil umræða sé nú um kulnun í starfi.

„Við höfum misst sjónar á því að taugakerfi okkar fái tækifæri til að slaka á þegar pása fæst í daglegu amstri. Oftar en ekki erum við föst í drifkerfinu, mætum uppskrúfuð í hádegishléið, upptekin af því að standa okkur í samræðum um flókin þjóðfélagsmál við vinnufélagana, í stað þess að fara í sefkerfið sem vinnur gegn streitu. „Hygge“ er tækifæri okkar á vinnustað til að draga úr líkum á of miklu álagi og kulnun; að nýta pásurnar til að vefja okkur inn í teppi og að það sé viðurkennt og í lagi. Að pásurnar séu nýttar til að hægja á, draga úr streitu og hafa það huggulegt saman,“ segir Kristín Linda og hvetur fólk til að upphefja „hygge“, til dæmis með því að taka fleiri myndir og snöpp af huggulegum, rólegum stundum, til dæmis þegar það kúrir undir teppi og hlustar á tónlist sem veitir því hugarró.

„Með því segjum við umheiminum og okkur sjálfum hvað við höfum það ótrúlega huggulegt og líður vel. Það verður vonandi næsta tískubylgja; hvað við höfum það ótrúlega kósí uppi í sófa, á þúfu í mónum eða hæglæti við kertaljós, og tileinkum okkur þann ljúfa, danska lífsstíl að hafa það huggulegt.“

Námskeið í huggulegheitum sækir fólk á öllum aldri.

„Til okkar kemur yngra fólk sem sækist eftir meiri friðsæld og ró á stórum heimilum en líka fólk á miðjum aldri sem vill hlúa að sér, njóta lífsins og eldast vel. Það liggur fyrir að við verðum æ eldri og einhverjir sem eru um fertugt gætu hæglega orðið 110 ára. Þá þarf að hugsa vel um líkama, sál og taugakerfið og hlúa að því fyrir næstu 70 árin svo við endumst vel og eldumst vel.“