Síðasta tónleikaferðalagi Hatara var slaufað í miðju kafi vegna heimsfaraldurs og sveitin hefur meira og minna verið í dvala síðan. Annar söngvara sveitarinnar segir nýjasta lag sveitarinnar, Dansið eða deyið, vera vinalegan fjölskyldusumarsmell.

„Hún fór af stað með tónleikum í bænum Seinäjoki í Finnlandi,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson, um nýja tónleikaferð Hatara sem hófst í byrjun júlí. Aðspurður hvers vegna Finnland hafi orðið fyrir valinu svarar hann: „Samkvæmt streymistölum og tölfræði á netinu sem við sáum eru Finnarnir einna opnastir fyrir boðskap Hatara,“ segir hann og bætir við að tónleikarnir hafi verið vel lukkaðir.

En má þá skilja það svo að Hatari velji tónleikastaði út frá gögnum á streymisveitum?

„Við látum þetta í hendur sérfræðinga og gerum eins og okkur er sagt,“ segir Matthías. „Það er gott fólk á öllum póstum. En vissulega er Einar trommari mjög slyngur spunameistari og hefur oft skoðun á því hvernig við framkvæmum svona áætlanir.“ Þar vísar Matthías til Einars Hrafns Stefánssonar sem gegnt hefur stöðu kynningarstjóra Íslenska dansflokksins síðustu tvö ár.

Túlkun á ástandi samfélagsins

Matthías segir að nýja lag sveitarinnar, Dansið eða deyið, sé vinalegur fjölskyldusumarsmellur.

„Eins og mörg lögin okkar eru reyndar,“ bætir hann við. „En þetta er okkar túlkun á ástandi samfélagsins, hvar við erum stödd og hvert við stefnum. Það er náttúrulega gagnrýninn undirtónn í laginu en milli línanna má lesa vilja okkar í Hatara til að gleðja fólk og hvetja það til að eiga góðar samverustundir með fjölskyldu og vinum.“

Inntur eftir breytingu á andrúmslofti meðal tónleikagesta fyrir og eftir heimsfaraldur svarar Matthías:

„Það er góð spurning. Við erum bara að vinna í því að halda sýningunni ferskri og skemmtilegri. Það eru breytingar á búningum sem við erum að koma til skjalanna,“ segir hann. „Klemens Hannigan er áfram búningameistari í samtali við hina tvo stofnmeðlimi sveitarinnar.“

Hatari eru vinsæll í Finnlandi ef marka má gögn frá streymisveitum.
Mynd/SigtryggurAri

Barnalán hjá meðlimum

Meðlimir Hatara hafa bætt við sig börnum síðan sveitin var stofnuð árið 2015. Sveitin tók þátt í Eurovision árið 2019 og vakti heimsathygli í kjölfarið, ekki síst fyrir mótmæla­aðgerðir í beinni í trássi við reglur EBU. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og fréttamiðlar sögðu frá því þegar Matthías trúlofaðist unnustu sinni í Sky Lagoon síðasta haust.

„Það endurspeglast kannski í starfsumhverfi, að við leggjum upp úr því að vera fjölskylduvænn vinnustaður og ræktum jákvæðan starfsanda sem er innblásinn af okkar einkahögum,“ segir Matthías, sem eignaðist sitt fyrsta barn þann 16. júní með unnustu sinni Brynhildi Karlsdóttur, tónlistarkonu og danshöfundi.

Gaman að skrifa góða auglýsingu

Þá rataði Matthías í fréttirnar þegar hann réði sig í starf hjá auglýsingastofu sem einhverjum þótti skjóta skökku við í ljósi þess að boðskapur Hatara beinist gegn kapítalískum gildum.

„Ég elska að starfa hjá auglýsingastofu,“ svarar hann aðspurður um málið. „Það er fátt skemmtilegra og uppbyggilegra en að skrifa góða auglýsingu á góðum degi og hlæja með samstarfsfélögunum,“ segir hann. „Þó að við leggjum upp úr því að tortíma kapítalismanum ríkir skilningur á því að meðlimir þurfa að borga reikninga og kaupa taubleyjur.“