Lífið er ljúft, hamingjan er hér í Hveragerði, ekki handan næsta áfanga eða viðburðar, bara hérna innan um vínylplötutónana, á veröndinni og innan um barnadótið. Þess vegna er svo gott að vera til. Það er annað tempó hér einhvern veginn. Mér finnst eins og sálin mín hafi loksins nóg pláss til að breiða úr sér. Það sést á hamingjunni sem skín úr augum barnanna minna í þessari paradís. Ég er samt mikið í Reykjavík líka og finnst ekkert mál að keyra á milli. Frekar skemmtilegt, bara. Fæ smátíma fyrir sjálfa mig og dagdrauma mína í bílnum,“ segir söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir.

Þórunn segist fá mikinn innblástur frá nærumhverfinu í Hveragerði.

„Kyrrðin og þokan sem myndast oft á kvöldin, og plássið. Ég söng ekki mikið hástöfum í litlu fjölbýlisíbúðinni minni á Seljaveginum í Reykjavík, þótt stemningin hafi verið góð,“ segir hún.

Meðan á samgöngubanninu stóð var Þórunn með ungbarnið son sinn, og dóttur sína mest heima fyrir.

„Þannig að ég henti bara trampólíni inn í stofu, þakti allt með jógadýnum og breytti húsinu í eins konar leiktækjasal þar sem allt mátti um stund. Þetta var gaman og setti áhersluna á það eina sem skiptir raunverulega máli, heilsu manns og ástvina og að eiga stundir með fjölskyldunni. Ég held að þessi tími verði mjög dýrmætur í hugum barnanna í framtíðinni,“ segir hún.

Gott samstarf

Í dag kemur lagið Flugdreki með Þórunni á allar helstu streymisíður.

„Það fjallar um að taka allan kraftinn sinn aftur og svífa. Þrátt fyrir allt það slæma sem á hefur gengið. Lagið er um ástarsorg og ofbeldi, það fjallar um að standa upp aftur og aftur og halda áfram að dansa, við sinn eigin hjartslátt. Láta ekki buga sig, þrátt fyrir allt. Að lífið er fallegt og gott, þrátt fyrir áföll og sorgir,“ segir hún.

Lagið er samstarfsverkefni Þórunnar og Agga Friðbertssonar.

„Hann er algjör snillingur og mikill vinur minn. Ég setti innlegg á Facebook-síðuna Hljóðnördar án landamæra. Þar er fullt af alls konar tónlistarsnillum, bæði stelpum og strákum. Ég óskaði eftir undirspilum og töktum og Aggi hafði samband. Ég féll strax fyrir hans hljóðheimi og við vinnum vel saman.“

Þangað til hafði Þórunn aðallega samið lög á ensku.

„Fyrir utan tónsmíðar mínar í æsku, sem voru allar einhver ljóð um hunda og ketti og visnandi blóm og þannig,“ segir Þórunn og hlær. „Það var ágætt og kærkomið að tengjast móðurmáli sínu aftur og fara að semja, ég er nefnilega mjög mikið að semja ljóð, hef alltaf gert, en leyfi fáum að heyra,“ bætir hún við.

Mynd/Erna Ernuland

Unnið með stórstjörnum

Þórunn segjast eiga heilan haug af óútgefnu efni sem liggur bara í tölvunni hennar.

„Bæði falleg, róleg lög og poppsmelli. Ég nefnilega elska að semja, en ekki jafn mikið að gefa út, eða að plögga sjálfa mig. Ég óska hér með eftir umboðsmanni sem nennir því,“ segir hún og hlær.

Þórunn hefur unnið með heimsþekktu fólki innan geirans í gegnum tíðina, lagahöfundum, tónlistarfólki og pródúsentum.

„Ég er til dæmis búin að vera að vinna samstarfsverkefni með Fred Ball, sem pródúseraði nýjustu Beyoncé-plötuna og vinnur mikið með Jay-Z og alls konar stórstjörnum. Hann bauð mér í stúdíóið sitt fyrir stuttu og við sömdum tvö lög. En ég er alltaf til í að vinna með nýju fólki, sérstaklega í texta- og lagasmíðum, ég elska það flæði sem getur myndast. Einnig þyrfti ég að fara að dusta rykið af áhugaleikkonunni sem fékk seinast að skína í Steindanum okkar og Borgríki. Það er svo gaman að leika,“ segir hún brosandi.

Raunveruleikinn er sexí

Fyrir stuttu vakti Þórunn athygli fyrir að benda á ofnotkun margra á svokölluðum filterum á samfélagsmiðlum.

„Já, það var nú bara eitthvað mjög óplanað atriði sem ég henti í loftið út frá svipuðum pælingum á samfélagsmiðlum. Þar á meðal frá Ernu Ernuland, vinkonu minni, Andreu Eyland, sem er með Kviknar, og Tinnu Sverrisdóttur leikkonu. Pælingin var að sýna sitt raunverulega sjálf, frekar en að fela sig á bak við filtera. En allt er gott í hófi og raunveruleikinn er sexí. Ég lofaði samt ekki því að nota aldrei aftur filtera, því ég á stundum daga þar sem ég nenni ekki að sýna öllum allt. Það má líka. En nei, það rignir ekkert inn verkefnum eftir það, en þegar maður málar upp glansmyndina er maður ákjósanlegri í alls konar. Fólk elskar að láta plata sig með einhverjum göldrum,“ segir hún.

Er eitthvað annað á döfinni?

„Milljón verkefni og sjálfsvinna. Börnin mín og bara ástin og lífið.“

Hvernig ætlar þú að verja sumrinu?

„Ég ætla einfaldlega að njóta.“

Hægt er að hlusta á lagið hér.